Ólafur Þór Jóhannesson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs hf., en hann starfaði áður með forstjóranum Árna Pétri Jónssyni hjá bæði Basko og Teymi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í vikunni hættir Benedikt Ólafsson sem verið hefur fjármálastjóri fyrirtækisins síðustu fjögur ár.

Viðskiptablaðið sagði frá því á sínum tíma þegar Landsbankinn vildi láta forstjóra og aðstoðarforstjóra Teymis, þá Árna Pétur og Ólaf Þór, víkja, árið 2009, en samkvæmt fréttum frá 2010 , þegar Ólafur Þór var ráðinn til eignaumsýslufélags Íslandsbanka, stefndi í að bankinn þyrfti að afskrifa hundruð milljóna vegna lána til þeirra tveggja vegna kaupa þeirra á hlut í Teymi.

Jafnframt hefur verið gerð breyting á skipuriti félagsins þar sem Már Erlingsson, sem stýrir rekstrarsviðinu, tekur að sér hlutverk aðstoðarforstjóra Skeljungs. sölusviðinu hefur verið skipt upp ásamt því að Gróa Björg Baldvinsdótti yfirlögfræðingur tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins.

Ólafur Þór Jónsson hefur verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi síðan 2018 og auk þess að sinna stjórnarstörfum í nokkrum félögum. Áður gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs og staðgengils forstjóra Basko ehf. eða frá 2012-2018.

Þá var Ólafur framkvæmdastjóri Miðengis ehf., eignarhaldsfélags í eigu Íslandsbanka, frá 2010-2012. Á árunum 2006-2010 gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra fjármálasviðs Teymis hf. sem var skráð félag í Kauphöll Íslands. Á árunum 1996-2006 starfaði Ólafur á endurskoðunarsviði PricewaterhouseCoopers og varð síðar eigandi.

Auk þess sinnti hann kennslu í Háskólanum í Reykjavík við viðskiptadeild háskólans og starfaði fyrir prófnefnd löggiltra endurskoðenda. Ólafur er með Cand.oecon próf í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands og er löggiltur endurskoðandi.

FRAMKVÆMDASTJÓRN SKELJUNGS NÚ:

  • Árni Pétur Jónsson, forstjóri
  • Gróa Björg Baldvinsdóttir, yfirlögfræðingur
  • Már Erlingsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og aðstoðarforstjóri
  • Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs
  • Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs

Eins og áður segir hefur sölusviði fyrirtækisins hefur verið skipt upp í tvö svið, fyrirtækjasvið og einstaklingssvið. Þórður Guðjónsson mun áfram leiða fyrirtækjasviðið en Árni Pétur Jónsson, forstjóri, mun leiða einstaklingssvið Skeljungs.

Fjármálasvið mun eins og áður segir vera leitt af, Ólafi Þór Jóhannessyni,  sem hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri þess sviðs. Undir það svið mun heyra  mannauðs- og skrifstofumál, upplýsingatækni og bókhald. Ekki verður lengur starfrækt sérstakt skrifstofu- og samskiptasvið og færast markaðsmál til einstaklingssviðs, sem líkt og áður sagði er stýrt af forstjóra félagsins.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs segir breytinguna felast í að aðskilnaði sölu til fyrirtækja og einstaklinga. „Í því felst að við ætlum að leggja aukna áherslu á vörumerkið Orkuna. Orkan var fyrsta lággjalda vörumerkið fyrir eldsneytissölu til einstaklinga hér á landi. Það er mat mitt að þar á félagið inni tækifæri til að styrkja stöðu sína á eldsneytismarkaðinum,“ segir Árni Pétur.

„Það er mikill fengur fyrir Skeljung að fá Ólaf Þór til liðs við félagið. Ég tel að hans mikla reynsla muni nýtast vel í þeim verkefnum sem eru framundan hjá okkur. Ólafur er löggiltur endurskoðandi og hefur áður stýrt fjármálasviði félags sem skráð var í Kauphöllina. Ég tel Ólaf mikilvægan liðsmann í framkvæmdastjórn félagsins.

Sú ákvörðun að fjölga í framkvæmdastjórninni, úr fjórum í fimm aðila, gefur okkur meiri breidd en áður.  Gróa Björg hefur starfað hjá Skeljungi í tæp 3 ár og sýnt að hún er mjög fær stjórnandi.  Hún kemur því inn í framkvæmdastjórnina með sína þekkingu og reynslu.  Það er styrkleiki fyrir félagið, og tímabært, að við fáum öflugan kvenkyns stjórnanda inn í stjórnendateymið.“