Hæfnisnefnd Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, hefur flokkað þá 15 umsækjendur um starf seðlabankastjóra sem eftir standa, í hæfa, vel hæfa og mjög vel hæfa að því er Kjarninn greinir frá.

Þeir fjórir sem fá stimpilinn mjög vel hæfir eru allir doktorar í hagfræði, en umsækjendur hafa frest til 19. júní til að gera athugasemdir við matið. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá sóttu upphaflega 16 um stöðuna, en síðan þá hefur einn, Benedikt Jóhannesson fyrrum fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, hefur dregið umsókn sína til baka .

Þeir fjórir hæfustu að mati nefndarinnar eru:

  • Arnór Sighvatsson, ráðgjafi seðlabankastjóra, og fyrrum aðalhagfræðingur bankans og aðstoðarseðlabankastjóri
  • Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar HÍ
  • Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics í London
  • Gylfi Magnússon, dósent við HÍ, formaður bankaráðs seðlabankans og fyrrum utanþings viðskiptaráðherra í ríkisstjórn samfylkingar og Vinstri grænna.

Í nefndinni sitja þau Eyjólfur Guðmundsson rektor HA, en hann er tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins og Þórunn Guðmundsdóttir hæstaréttarlögmaður og varaformaður bankaráðs, sem tilnefnd var af bankaráði seðlabankans, auk formannsins, Sigríðar Benediktsdóttur hagfræðingur við Yale háskóla sem skipuð var af forsætisráðherra.

Það verður svo forsætisráðherra sjálfur sem skipar þann sem tekur við embættinu af Má Guðmundssyni sem lætur af störfum eftir 10 ára starf í sumar.