Icelandair hefur sagt upp 115 flugmönnum og þar að auki tilkynnt 70 flugstjórum að þeir verði færðir niður í stöðu flugmanns næsta vetur. Þetta kom fram í frétt Rúv í morgun. Segir í fréttinni að fara þurfi aftur til ársins 2008 til að finna sambærilegar uppsagnir

Í samtali við Vísi segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair að uppsagnirnar séu hluti af reglulegri starfsemi flugfélagsins. Segir hann að það sé í sjálfu sér ekkert nýtt að flugmenn séu ráðnir inn á vorin og sagt upp að hausti. Það skýrist af því að það er miklu meira um að vera í fluginu og ferðaþjónustunni yfir sumarmánuðina en á veturna. Bætir hann því við að ákvæði kjarasamninga flugmanna kveði á um flugmenn séu fastráðnir inn á vorin og svo sagt upp á haustin í stað þess að þeir séu ráðnir inn sem sumarstarfsmenn.

Segir hann að lokum að uppsagnirnar hafi ekkert með minni vöxt félagsins að gera. „Þetta snýst bara um að hafa réttan fjölda starfsmanna."