Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að fréttaflutningur af meintu ritstuldi hans við ritun Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna hafi verið „óvandaður og óboðlegur“ en Fréttablaðið fjallaði um málið á forsíðu sinni þann 17. desember. Ásgeir segir í Facebook-færslu að engar forsendur séu til að bendla sig við ritstuld í tengslum við skýrsluna. Hann birtir jafnframt myndir af greinargerð skrifstofu Alþingis um málið.

„Það hefur stundum verið haft á orði að ef ásakanir eru endurteknar nægjanlega oft festist þær – þó þær séu rangar. Sú skal ekki verða raunin hvað varðar ásakanir um að ég hafi gerst sekur um ritstuld í tengslum við ritun Rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna – fyrir um 8 árum síðan,“ skrifar Ásgeir.

Málið snýr að ásökunum Árna H. Kristjánssonar um að hópurinn sem stóð að baki skýrslunni hafi framið ritstuld og tekið efni úr bókinni Hugsjónir, fjármál og pólitík: Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár sem gefin var út af Sögufélaginu. Voru ásakanirnar settar í samhengi við við ásakanir Bergsveins Birgissonar, höfund bókarinnar Leitin að svarta víkingnum , sem sakaði sakaði seðlabankastjóra um „umfangsmikinn ritstuld“ í bókinni Eyjan hans Ingólfs .

Ásgeir svaraði ásökunum Árna sama dag og Fréttablaðið fjallaði um málið og sagðist enga aðild eiga að deilunum. Hann hafi komið að verkefninu eftir að það hafði þegar staðið yfir í tvö ár, einungis unnið við skýrsluna í 1-2 mánuði og ekki haft frekari afskipti af henni. Jafnframt hafi honum verið gert það ljóst að hann ætti engan höfundarrétt að efninu og minnir að hann hafi verið látinn skrifa undir yfirlýsingu um að allt efnið sem hann myndi láta af sér yrði í eign Alþingis.

Sjá einnig: Ásgeir segist enga aðild eiga að deilunum

Ásgeir hefur nú fengið afhenda greinargerð skrifstofu Alþingis um afgreiðslu ritstuldarmálsins sem er dagsett þann 27. nóvember 2015 og var send sem svar til Sögufélagsins. „Mér skilst að [svarið] hafi falið í sér endalok þessa máls,“ skrifar Ásgeir sem birtir nokkra punkta úr greinargerðinni.

Hann segir niðurstöðu Alþingis vera að „komið hafi fram fullnægjandi skýringar“ og þetta hafi verið „óviljaverk en ekki vísvitandi tilraun til ritstuldar“. Ásgeir segir að allir geta myndað sína eigin skoðun eftir lestur greinargerðarinnar en það sem skiptir honum máli er að hún „staðfesti algerlega“ að hann hafi ekki verið aðila að málinu „og raunar alls ókunnugur því fyrr en ég var tengdur því á forsíðu dagblaðs nú rétt fyrir jólin“.

„Ég verð að segja það frá hjartanu – í ljósi þess sem ég hef hér rakið finnst mér finnst fréttaflutningur af þessu máli og sakbending mín sem ritþjófs í tveimur forsíðufréttum sama dagblaðs vegna starfa minna fyrir Rannsóknarnefndina óvandaður og óboðlegur,“ skrifar Ásgeir og segir að málinu ætti nú að vera lokið hvað hann snerti.

Punktarnir sem Ásgeir dregur fram úr greinargerðinni:

Ritstjórnarleg ábyrgð á Rannsóknarskýrslunni var á höndum þriggja manna nefndar. Ég var ekki í þeirri nefnd og fór aldrei með neina ritstjórnarlega ábyrgð.

Ásakanir um ritstuld snerust að mestu um Viðauka A í skýrslunni sem ber titillinn Hagsaga sparisjóðanna. Þessi viðauki er höfundarmerktur tveimur mönnum – hvorugur þeirra er ég. Og ég hafði enga aðkomu að ritun þessa kafla.

Téð rannsóknarskýrsla um fall sparisjóðanna er vandað og yfirgripsmikið verk er telur 1867 síður og er ritað af 53 starfsmönnum og verktökum. Ég var einn þessara 53. Ekkert efni er þó höfundarmerkt mér sérstaklega. Það er því umhugsunarefni af hverju mitt nafn – eitt af 53 öðrum nöfnum – er dregið fram sérstaklega í fréttaflutningi af málinu.

Ég kom að ritun þessarar skýrslu 1-2 árum eftir að Árni H. Kristjánsson hætti samstarfi við nefndina. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi séð efni frá honum þá mánuði sem ég vann sem verktaki fyrir nefndina, eða yfir höfuð að ég hafi vitað að hann væri til.

Greinargerð Alþingis er afdráttarlaus með það „að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að einstakir rannsóknarnefndarmenn hafi vitað eða mátt vita um framangreind vinnubrögð og þá atburðaröð sem lýst hefur verið.“