Ásgeir Jónsson tók við sem nýr seðlabankastjóri í morgun af Má Guðmundssyni. Tilkynnt var um skipun Ásgeirs þann 24. júlí síðastliðinn en skipunartími fyrirrennara hans rann út í dag.

„Þetta er í raun eina starfið sem hefði verið hægt að bjóða mér svo ég myndi fara út úr háskólanum. Ég er orðinn 49 ára gamall og kominn einhver 20 ár síðan ég kom úr námi, þannig að ég er bara mjög spenntur fyrir því að takast á við þetta verkefni,“ sagði Ásgeir í samtali við Viðskiptablaðið sama dag og tilkynnt var um skipun hans.

Meðal verkefna sem bíða Ásgeirs, auk hefðbundinna „seðlabankastarfa“, er að vinna að sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins en hún tekur gildi um næstu áramót.