Ekki virðist einhugur innan ríkisstjórnarinnar um nýkynntar aðgerðir á landamærunum þó málið hafi verið afgreitt í ríkisstjórn. Eftir breytinguna þurfa bólusettir ferðamenn sem koma inn í landið að sýna fram á neikvætt PCR eða hraðpróf við COVID .

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með blaðamanni Mbl.is sem spurði hvort rökin fyrir aðgerðunum væru nægjanlega sterk vegna þess hve stóran hluta þjóðarinnar búið er að bólusetja. „Jú ég hef einmitt verið að spyrja mig þeirrar spurningar. Svörin sem maður fær er að það sé óvissa,“ segir Bjarni við Mbl.is

„Ég hef fyrst og fremst séð vísbendingar um að almennar bólusetningar virðast vera að slá mjög verulega á líkurnar á dauðsföllum og innlögnum, það eru gögnin sem ég hef séð. Ég hef ekki séð neitt annað,“ sagði Bjarni spurður hvort hann væri sáttur við svörin. Hann skilji það sem svo að nýjustu reglurnar sé varúðarráðstöfun.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, telur aðgerðirnar óþarfar á meðan innlögnum og alvarlegum veikindum fjölgar ekki þó hún hafi ekki lagst gegn þeim í ríkisstjórn að því er RÚV greinir frá . Bót væri í máli að hægt væri að sýna niðurstöðu hraðaprófa en ekki einvörðungu PCR prófa.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, er ekki á sama máli. „Þessar aðgerðir sem við erum að leggja til núna eru í raun mjög mildar. Við erum ekki að leggja til sóttkví, við erum ekki að leggja til mikið tilstand við að afla sér þessara prófa sem krafist verður,“ segir Svandís við Mbl.is.

Svandís segir ákveðna þætti í faraldrinumhafa þróast öðru vísi en búist var við. Til að mynda virðist bólusetning ekki að virka jafn vel gegn Delta afbrigðinu og vonast var til.

Svandís fór ekki að öllu leyti að tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis sem lagt til í sínu minnisblaði að láta Íslendinga einnig skila inn neikvæðu COVID-prófi við komu til landsins.

Þá vonast Svandís til að málið verði ekki að pólitísku bitbeini fyrir komandi Alþingiskosningar í september.