Nokkuð minni eftirspurn var eftir hlutafé í hlutafjárútboði Big Hit Entertainment, útgefanda kóresku strákasveitarinnar BTS, en ráð hafði verið gert fyrir. Þegar upp var staðið reyndist eftirspurnin vera 607-föld miðað við það sem í boði var en því hafði verið spáð að eftirspurnin yrði allt að þúsundföld.

Búist hafði verið við því að skráningin myndi slá met sem Kakao Games setti í upphafi síðasta mánaðar. Þar var eftirspurnin tæplega 1.500-föld það sem í boði var. Hluturinn útboðsgengið þar var á móti 24 þúsund won samanborið við 135 þúsund won í tilfelli Big Hit.

Alls bárust tilboð fyrir 58 billjónir wona, andvirði rúmlega 50 milljarða bandaríkjadollara, í útboði Big Hit. Miðað við þessar forsendur hefði verið nauðsynlegt að leggja fram tilboð fyrir 100 milljónir wona til að fá í sinn hlut tvö hlutabréf í Big Hit að útboði loknu.

Viðskipti með bréf Big Hit munu hefjast á KOSPI markaðnum þann 15. október næstkomandi. Fylgi þau sömu þróun og Kakao Games gerði fyrsta daginn má búast við því að þau muni tvöfaldast í verði skömmu eftir að viðskipti hefjast með þau. Búist er við því að stór hluti fjárfesta muni reyna að selja bréf sín skömmu eftir að viðskipti hefjast og treysta á að þau taki stórt stökk í fyrstu viðskiptum.

Greinendur ytra eru efins yfir því að það að fjárfesta í Big Hit sé ábatasamt til langs tíma enda á stærstur hluti tekna félagsins rætur að rekja til BTS. Takist þeim hins vegar vel til með forritið Weverse gæti staðan orðið önnur.