Arion banki gerir athugasemd við fréttaflutning af Primera Air í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Í fréttinni er haft eftir Andra Má Ingólfssyni, eiganda og forstjóra Primera Air, að Primera Air væri enn í rekstri ef flugfélagið hefði fengið brúarlán frá Arion banka líkt og til hafi staðið. Þá hafi Arion banki þrýst á um að rekstri ferðskrifstofna Primera Travel yrði komið í nýtt félag, sem fékk nafnið Travelco.

Tilkynningin Arion banka í heild sinni:

Arion banki telur fréttaflutning í Viðskiptablaðinu í morgun af gjaldþroti Primera Air og aðkomu Arion banka að málefnum félaganna Primera Travel Group og Primera Air ekki í samræmi við staðreyndir málsins og gerir athugasemd við þær rangfærslur sem þar koma fram. Arion banki vill taka fram að þrátt fyrir að hafa átt í viðræðum við félagið gaf bankinn hvorki út lánsloforð né nokkur fyrirheit um lánveitingu vegna Primera Air. Einnig að bankinn þrýsti ekki á að rekstur ferðaskrifstofa Primera Travel Group yrði færður í nýtt félag. Arion banki samþykkti hins vegar að sú leið yrði farin og mat það sem svo að með því væri hagsmuna bankans, starfsfólks ferðaskrifstofanna, viðskiptavina þeirra, sem annars hefðu endað sem strandaglópar víða um heim, og annarra kröfuhafa best gætt.

Viðskiptablaðið stendur við fréttina.