Atvinnuleysi hefur minnkað hratt á Íslandi. Á öðrum ársfjórðungi var atvinnuleysi 2%, ef miðað er við mælingar Hagstofunnar. Hefur ekki verið minna atvinnuleysi síðan 2008. Í júní var skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun 2% og hefur meðalatvinnuleysi síðastliðið ár verið 2,5%. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Í Peningamálum Seðlabankans kemur einnig fram að í könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja Íslands að hlutfall fyrirtækja sem fundu fyrir skorti á starfsfólki hafði hækkað um 20% milli ára. Þá töldu um 42% fyrirtækja sig búa við skort á starfsfólki - það hlutfall hefur ekki verið hærra frá lok árs 2007.

Innflutt vinnuafl

Kemur einnig fram að fyrirtæki virðast bregðast við þessari þróun með innflutningi vinnuafls. Á fyrri hluta ársins 2016 fluttust 2.200 erlendir ríkisborgarar til Íslands. Þetta er rúm tvöföldun frá sama tíma í fyrra.

Atvinnuþátttakan er talin nátengd hagsveiflunni og sé töluvert meiri meðal karla en kvenna. Atvinnuþátttaka karla lækkaði um rúm 5& frá 2008 til 2012 - en hún er nú jafn mikil og árið 2007.