Hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 2,5% í ágúst síðastliðnum samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands . Áætlað er að atvinnuþátttaka hafi varið 82,4% en um 208.600 manns á aldrinum 16-74 ára voru á vinnumarkaði.

Vinnuaflið jókst um 7.900 manns milli ára en þó lækkaði hlutfall þess af mannfjölda um 0,4 prósentustig. Atvinnulausir í ágúst mældust 400 fleiri en í sama mánuði árið 2017 en þá voru þeir um 2,4% af vinnuafli.

Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi var 2,7% í ágúst

Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum var fjöldi fólks á vinnumarkaði 206.100 í ágúst 2018. Atvinnuþáttaka var því 81,8% í ágúst, sem er sama hlutfall og var í júlí. Áætlaður fjöldi atvinnulausra í ágúst var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 5.500 eða 2,7%. Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta.