Samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands var atvinnuleysi í apríl síðastliðnum 4%. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79,6%.

Samkvæmt óleiðréttum mælingum voru að jafnaði 211.500 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í apríl 2019. Það jafngildir 83,0% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu reyndust 203.000 vera starfandi og 8.400 án vinnu og í atvinnuleit.

Samanburður mælinga fyrir apríl 2018 og 2019 sýnir að vinnuafli fjölgaði um 9.400 manns, á meðan hlutfall þess af mannfjölda hækkaði um 0,9 prósentustig. Starfandi fólki fjölgaði um 10.300 og hlutfallið hækkaði um 1,4 prósentustig, frá því á sama tíma árið 2018.

Atvinnulausir í apríl 2019 voru um 1.000 manns færri en á sama tíma árið 2018 þegar þeir voru 9.400 eða 4,6% af vinnuaflinu. Alls voru 43.500 utan vinnumarkaðar í apríl 2019 en höfðu verið 44.100 í apríl 2018.

Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar var fjöldi fólks á vinnumarkaði 209.700 í apríl 2019. Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 82,0%, sem er 0,2 prósentustigi lægri en í mars. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu voru atvinnulausir 6.100 í apríl, eða 2,9%, sem er 0,1 prósentustigi hærri en í mars. Fyrir sama tímabil lækkaði leiðrétt hlutfall starfandi fólks um 0,3 prósentustig, eða í 79,6% fyrir apríl 2019.