Caroline Leonie Kellen, þýskur ríkisborgari fædd árið 1979, keypti nýlega Fjölnisveg 9 á 690 milljónir króna, sem gerir húsið að dýrasta einbýlishús sem selst hefur á Íslandi. Hún hefur búið lengst af í Bandaríkjunum en hún er dóttir Michaels Max Kellen sem var um tíma forstjóri fjárfestingabankans Arnhold and S. Bleichroeder Holdings.

Caroline hefur dvalið hér á landi síðastliðin ár, með hléum, en mun nú setjast að í Þingholtunum. Hún er í stjórn góðgerðasjóðsins „Anna Maria and Stephen Kellen Foundation" sem er nefndur í höfuðið á afa hennar og ömmu. Heildareignir sjóðsins nema rúmlega 1,3 milljörðum dala.

Fjárfestingarbankinn Arnhold and S. Bleichroeder Holdings, sem faðir Caroline starfaði fyrir, varð til í gegnum samruna tveggja banka, S. Bleichröder og Arnhold Brothers, en seinni bankinn keypti þann fyrri árið 1931. Fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar frá Þýskalandi til New York árið 1937 vegna ofsókna nasista. Meðal þeirra sem hafa starfað hjá bankanum er fjárfestirinn George Soros, en hann var hjá bankanum á árunum 1963 - 1973.

Verðbréfamiðlunarsvið bankans var selt til franska verðbréfabankans Banque Populaire árið 2002 fyrir 105 milljónir dala. Eignastýringarsviðið hélt áfram starfsemi sinni í gegnum móðurfélagið þangað til það var selt í desembermánuði árið 2015 til fjárfestingarrisans Blackstone og Corsair Capital.

Skipstjóravillur í Reykjavík

Fjölnisvegur 9 er í skipstjóravillustíl, en Pétur Ingimundarson teiknaði húsið fyrir Guðmund Ásbjörnsson, kaupmann og forseta bæjarstjórnar Reykjavíkur um áratugaskeið, að því er kemur fram í 20 ára gamalli grein Moggans. Skipstjóravillur voru að mestu leyti byggðar á tímabilinu 1915-30, samkvæmt Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi. Slík hús einkennast oft af því að vera með barokkgafla á þakinu og vegleg anddyri.

Pétur Ingimundarson teiknaði einnig hús í sama stíl við Ásvallagötu 8, sem er í eigu Eyrúnar Lindar Magnúsdóttur, eiginkonu Árna Odds Þórðarsonar, forstjóra Marel. Annað hús í skipstjóravillustíl stendur við Túngötu 34 sem Guðmundur Þorláksson teiknaði, en húsið er í eigu Guðjóns Más Guðjónssonar, stofnanda OZ.

Nánar er fjallað um Fjölnisveginn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .