Ríkisútvarpið (RÚV) skilaði 45 milljóna króna afgangi á síðasta ári, samanborið við 209 milljóna tap árið 2020. Tekjur af auglýsingum jukust um ríflega fjórðung á milli ára og námu 2.026 milljónum á síðasta ári. Þjónustutekjur frá ríkissjóði minnkuðu um 275 milljónir á milli ára og námu 4.655 milljónum króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársreikningi Ríkisútvarpsins fyrir árið 2021.

Ársverk hjá RÚV á síðasta ári voru 252 talsins og fækkaði um fjórtán frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld minnkuðu úr 3.036 milljónum króna í 2.986 milljónir á milli ára.

Gjaldfærð laun og lífeyrissjóðsgreiðslur til æðstu stjórnenda samstæðunnar, annarra en útvarpsstjóra, námu 155,5 milljónum króna á árinu 2021 samanborið við 173 milljónir árið áður. Heildarlaun og lífeyrissjóðsgreiðslur Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra á árinu jukust um tæplega 4 milljónir á milli ára og námu 30 milljónum króna.

Eignir RÚV námu 8.766 milljónum króna í árslok 2021, samanborið við 8.340 milljónir árið áður. Fasteign að Efstaleiti 1 var bókfærð á 3.267 milljónir króna en fasteignamat nam 5.178 milljónum. Eigið fé var 1.968 milljónir og eiginfjárhlutfall var því 22,5%. Skuldir Ríkisútvarpsins jukust um 6% á milli ára og námu tæplega 6,8 milljörðum í lok síðasta árs.

„Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, m.a. vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir á undanförnum árum sem hafa leitt til lækkunar skulda, telur stjórn RÚV að félagið sé enn of skuldsett og mun halda áfram að leita varanlegra lausna varðandi skuldsetningu þess,“ segir í skýrslu stjórnar.