Útflutningur á vörum og þjónustu frá Íslandi þarf að aukast um 940 milljarða króna að raunvirði á næstu 20 árum ef 3% hagvöxtur á ársgrundvelli á að geta verið sjálfbær. Þetta kemur fram í skýrslu sem Viðskiptaráð Íslands (VÍ) gaf út á dögunum. Skýrslan fjallar um stöðu efnahagsmála á Íslandi í dag, nýlega atburði í stjórnmálum, viðskiptum og efnahagslífi og langtímahorfur í hagkerfinu.

Byggir þessi sviðsmynd á Íslandsskýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey frá árinu 2012. Ein af niðurstöð­ um skýrslunnar var sú að ef 4% hagvöxtur á ársgrundvelli ætti að reynast sjálfbær frá 2012 til 2030 þyrfti útflutningur að tvö­ faldast á sama tíma. Jafngilti sú aukning ríflega 1.000 milljörðum króna. Í kjölfar skýrslunnar fékk þessi niðurstaða nafnið „þúsund milljarða áskorunin“.

Með sjálfbærum hagvexti er átt við að hagvöxtur sé drifinn áfram af útflutningi en sé ekki fjármagnaður með viðskiptahalla við útlönd sem leiðir til erlendrar skuldsetningar. Í skýrslu Við­ skiptaráðs frá árinu 2016 sem bar heitið Leiðin að aukinni hagsæld kemur fram að ein af meginforsendum sjálfbærs vaxtar hagkerfisins sé að viðhalda ytra jafnvægi þess. Ytra jafnvægi snýst annars vegar um að viðhalda jafnvægi í viðskiptum með vörur og þjónustu, og hins vegar jafnvægi í erlendri fjármagnsstöðu.

Á árunum fyrir fjármálakreppuna sem reið yfir árið 2008 var hagvöxtur að mestu leyti drifinn áfram af viðvarandi viðskiptahalla við útlönd og vaxandi erlendri skuldsetningu. Er þetta talin ein af ástæðum þess að fjármálakreppan á Íslandi varð jafn alvarleg og raun bar vitni. Við­varandi viðskiptahalli við útlönd leiddi til söfnunar á erlendum skuldum og gerði það að verkum að íslenska hagkerfið varð smám saman berskjaldaðra gagnvart áföllum.

Í skýrslu VÍ sem kom út á dögunum er því lögð áhersla á að Íslendingar læri af reynslunni. Lærdómurinn er sá að miða þarf að því að vöxtur í útflutningi sé að minnsta kosti jafn mikill og vöxtur hagkerfisins í heild sinni. Verði þau skilyrði uppfyllt, mun útflutningur styðja við viðskiptajöfnuð og tryggja að hagvöxtur sé sjálfbær í stað þess að Íslendingar safni skuldum á ný.

Alþjóðageirinn hefur setið eftir

Hagvöxtur á Íslandi hefur verið kröftugur á undanförnum árum auk þess sem erlend staða þjóð­arbúsins hefur batnað. Á sama tíma hefur útflutningur á vöru og þjónustu aukist töluvert. Útflutningsvöxturinn hefur þó að mestu leyti átt sér stað með nýtingu náttúruauðlinda og þá sérstaklega í ferðaþjónustu.

Árið 2016 voru um 79% af útflutningi Íslands byggð á náttúruauðlindum í formi sjávarútvegs, orkunýtingar og ferðaþjónustu. Þessi hluti hagkerfisins var skilgreindur af McKinsey sem auð­ lindageirinn. Vandamálið sem blasir við er hins vegar að takmarkað eðli náttúruauðlinda setur vexti þessara atvinnugreina skorður.

Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið um 4,4% frá 2012 til 2016 og útflutningsvöxtur hafi numið 7,5% að meðaltali á sama tíma, er þróun útflutningstekna þvert á ráðleggingar McKinsey. Þær gerðu ráð fyrir því að alþjóðageirinn myndi standa undir bróðurparti útflutningsvaxtar. Alþjóðageirann má skilgreina sem alla þá starfsemi sem ekki er bundin við heimamarkað, samkeppnisvernd eða takmarkaðar náttúruauðlindir. Auk þess eru alþjóðageiranum engar skorður settar þegar kemur að útflutningsvexti. Hann byggir á hugviti en ekki staðbundnum náttúruauðlindum. Það gerir það að verkum að fyrirtæki innan geirans eru hreyfanlegri á milli landa en fyrirtæki innan auðlindageirans.

Skýrsla VÍ sýnir að frá árinu 2012 hefur hlutur alþjóðageirans nánast staðið í stað. Á árinu 2016 stóð hann fyrir um 21% af útflutningstekjum Íslands, samanborið við 24% árið 2012. Íslenskur útflutningur er því orðinn enn einsleitari enn hann var þegar skýrsla McKinsey kom út.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .