„Um leið og dagsetning opnunar landamæra Bandaríkjanna lá fyrir sáum við bókanir þangað styrkjast, bæði frá Íslandi og Evrópu, sem er mjög jákvætt," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við Viðskiptablaðið og bætir við að flæðið hafi orðið til þess að Icelandair hafi aukið tíðni ferða á nokkra áfangastaði vestanhafs.

„Við erum með tíu áfangastaði í Bandaríkjunum á þessum ársfjórðungi og þegar við sáum bókunarflæðið dagana eftir opnun ákváðum við að auka tíðnina á nokkra áfangastaði. Það er mjög gott að sjá opnunina skila því að bókunarstaðan er að styrkjast á öllum þessum áfangastöðum og í leiðakerfinu í heild sinni."

Sjá einnig: Tengimiðstöðin nær flugi

Spurður hvort fjárhagsleg áhrif lokunar landamæra Bandaríkjanna séu þekkt, segir Bogi þau mikil en erfitt sé að festa reiður á fjárhagsleg áhrif lokunar Bandaríkjanna umfram áhrif lokunar annarra landamæra. Farþegatölur í október sýni þó betri nýtingu Evrópu-megin.

„Líkt og farþegatölurnar sem við vorum að birta fyrir október bera með sér, hefur nýtingin Evrópu-megin verið betri, hún var tæplega 80% á meðan Norður-Ameríka var mun lakari, sem þýðir að heildarnýtingin var rétt undir 70%. En núna þegar Ameríkumarkaðurinn er kominn í gang gerum við ráð fyrir að heildarnýtingin haldi áfram að batna, að öðru óbreyttu, það er að segja ef það kemur ekki bakslag út af einhverju öðru."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .