Velta Bjórbaðanna á Dalvík nam 123,5 milljónum króna á síðasta ári sem er 77% aukning frá árinu 2020 og er nú komin á svipaðar slóðir og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Félagið hagnaðist um 4 milljónir samanborið við 12 milljóna tap árið áður. Ársverkum fjölgaði úr 5 í 7 á milli ára.

Bjórböðin voru stofnuð árið 2015 af Agnesi Sigurðardóttur og Ólafi Þresti Ólafssyni, eigendum bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði og opnuðu formlega árið 2017 .

Eignir Bjórbaðanna námu tæplega 189 milljónum í árslok 2021 en fasteign félagsins var bókfærð á 151 milljón. Eigið fé var nærri 61 milljón og skuldir námu 123 milljónum í lok síðasta árs.

Bruggsmiðjan Kaldi er stærsti hluthafi Bjórbaðanna með 31% hlut. Agnes og Ólafur Þröstur eiga einnig 16% beinan hlut í gegnum félagið Konný ehf. Birgir Ingi Guðmundsson fer með 20% beinan hlut. Þekktasti hluthafinn er þó Aron Einar Gunnarsson, sem leiddi landslið Íslands í fótbolta á stórmótum árin 2016 og 2018, en hann fer með 7,2% hlut.