Búist er við því að útgáfa bandarískra skuldabréfa í fjárfestingarflokki muni aukast í vikunni, en gert er ráð fyrir að gefin verði út skuldabréf fyrir allt að $25 - $30 milljarða í vikunni. Stóru bandarísku bankarnir eru þekktir fyrir að gefa út ný skuldabréf stuttu eftir kynningu uppgjöra til að fjármagna reksturinn sem er frekar fjármagnsfrekur.

Goldman Sachs, JP Morgan, Morgan Stanley, Citigroup og Wells Fargo kynntu allir ársfjórðungsuppgjör í liðinni viku en Bank of America kynnti sitt uppgjör í gær. Þá munu fyrirtækin Johnson & Johnson, Halliburton, Lockheed Martin og AT&T kynna sín uppgjör á næstu dögum en þau gefa öll út skuldabréf í fjárfestingarflokki, segir í frétt Bloomberg .

Útlit er fyrir að ennþá verði lítið um útgáfu svokallaðra ruslbréfa á næstunni, en flestir lánveitendur hafa endurfjármagnað sig á undanförnum tveimur árum, hafa nægt lausafé og enga stóra gjalddaga í náinni framtíð.

„Áhættuálag hefur ekki verið sveiflukenndara síðan í fjármálakrísunni, fyrir utan byrjun heimsfaraldursins," er haft eftir sérfræðingum hjá Barclays. „Við búumst við því að álagið muni þróast á sama hátt víðar þar sem þjóðhagsleg óvissa er mikil og jafnvel má gera ráð fyrir að tekjur verði minni en búist var við."