Arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfélaga námu 13,5 milljörðum króna á árinu 2014 og jukust um 1,7 milljarða eða 14% á milli ára. Arðgreiðslur sem hlutfall af EBITDA jukust einnig um 3 prósentustig. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu Íslandsbanka um íslenska sjávarútveginn.

Þar segir að árleg arðgreiðsla frá árinu 2001 nemur að meðaltali um 5,4 milljörðum króna og því ljóst að góð arðsemi í greininni hefur skapað svigrúm til aukinna arðgreiðslna undanfarin ár. Þar er þó tekið fram að arðgreiðslur koma til vegna hagnaðar ársins á undan.

Frá innleiðingu kvótakerfisins hefur arðsemi í sjávarútvegi aukist umtalsvert að mati skýrsluhöfunda. Í skýrslunni segir að samþjöppun óx innan greinarinnar samhliða því að aðgangur að fiskveiðiauðlindinni var takmarkaður og í kjölfarið hefur hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja stóraukist.

Tekjur sjávarútvegsfélaga á árinu 2014 námu 262 milljörðum króna og standa því tekjur í stað frá fyrra ári. EBITDA var 61 milljarðar króna og EBITDA framlegð ársins 2014 sú sama og árið á undan. Á föstu verðlagi ársins 2014 hafa tekjur dregist saman um 2% frá fyrra ári og er helsta ástæðan samdráttur í aflaverðmæti á milli áranna.

Arðgreiðslur í milljörðum króna og sem hlutfall af EBITDA hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Heimild: Íslandsbanki
Arðgreiðslur í milljörðum króna og sem hlutfall af EBITDA hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Heimild: Íslandsbanki