Bílaleigan Avis mun í haust byrja að bjóða upp á deilibílaþjónustu innan borgarmarkanna. Þjónustan mun verða undir merkjum bandarísku deilibílaþjónustunnar Zitcar sem er í sú stærsta í heimi. Mun þjónustan nefnast Zipcar á Íslandi. Þetta kemur fram í frétt Mbl .

Hugmyndin með deilibílaþjónustu gengur út á það að notendur geti nálgast bíla til að nýta í stuttar ferðir án þess að þurfa að eiga bíl sjálfir. Verða bílarnir staðsettir á bílastæðum um borgina og notendur borgi áskriftargjald fyrir. Í fyrstu munu notendur þurfa að skila bílunum aftur í sama stæði, en ef bílunum fjölgar muni opnast möguleikar á því að hægt verði að leggja þeim annars staðar eftir notkun. Mbl greindi frá því í gær að Reykjavíkurborg hyggst á þessu ári hefja útleigu á bílastæðum til deilibílaleiga. Er reiknað með því að tillögur um verðskrá og úthlutunarreglur verði teknar fyrir í umhverfis- skipulagsráði í lok sumars.

Hjálmar Pétursson, forstjóri Avis segir að fyrirtækið sé tilbúið að hefja þjónustuna. Það eina sem vanti sé að bílastæðin verði til reiðu. Þá segir Árni Sigurjónsson, verkefnastjóri hjá Avis sem vinnur að þróun deilibílaþjónustunnar að hugsunin sé að brúa bilið fyrir þá sem velja bíllausan lífsstíl en þurfi samt sem áður að nota bíl að einhverju leyti.