Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum og skuldabréfamarkaðir sýndu merki um samdrátt í kjölfar veikleikamerkja á þýskum og kínverskum mörkuðum sem vakið hefur ótta um að hægja taki á hagkerfi heimsins. Lækkaði Dow Jones Industrial Average vísitalan um 2,5% um miðjan viðskiptadag á meðan ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa til 30 ára náðu sögulegum lægðum.

Þurkaði lækkunin út hækkanirnar sem urðu á mörkuðum í gær þegar stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta seinkaði áætlunum um að setja á nýja tolla á kínverskar vörur.

Tolladeilur Kína og Bandaríkjanna, óvissa um stýrivaxtastefnu bandaríska seðlabankans, og merki um hægari hagvöxt hafa leitt til sveiflukenndrar viku á hlutabréfa, skuldabréfa og peningamörkuðum.

Fór ávöxtunarkrafan á bandarísk ríkisskuldabréf til 30 ára mest niður í 2,018% sem er lægra en síðasta lágmark sem var árið 2016 þegar hún fór í 2,094%. Lækkun ávöxtunarkröfunnar, og þar af leiðandi hækkandi verð skuldabréfa eru skýr merki um að fjármagnseigendur séu að hlaupa í skjól vegna óvissunnar.

Þó er ljóst að þarna skiptir tímasetningin öllu en WSJ bendir á að í kjölfar slíkrar lækkunar fylgir oft hækkun hlutabréfamarkaða fyrist um sinn. Þannig hefur S&P 500 vísitalan hækkað að meðaltali um 13% frá árinu 1978 frá fyrstu slíkum merkjum um samdrátt þangað til kreppan byrjar fyrir alvöru.