Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri Tulipip segir að margir hafi komið að máli við þær um framleiðslu sjónvarpsþáttaseríu, en á endanum hafi Zodiak Kids orðið fyrir valinu því þeir hafi deilt sömu sýn á þáttagerðina. Fyrirtækið er hluti af Banijay Group sem er stærsti sjálfstæði framleiðandi afþreyingarefnis í heiminum. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa þær Helga og Signý Kolbeinsdóttir aðalhönnuður fyrirtækisins byggt félagið upp frá árinu 2009.

Framleiddir verða 52 ellefu mínútna þættir sem Helga segir mjög algenga lengd, en í tengslum við sýningar á þeim sér Helga mikil tækifæri fyrir fyrirtækið að gera nytjaleyfissamninga sem leyfa stórum erlendum framleiðslufyrirtækjum að framleiða vörur sem tengjast Tulipop heiminum.

„Okkur leist strax mjög vel á teymið hjá Zodiak Kids sem var gríðarlega mikilvægt, enda höfum við séð að þegar fólk á að vinna saman að skapandi verkefnum þá er ekki nóg að fólk geti unnið saman. Það þarf að hafa virkilega gaman af því að vinna saman, og það hefur sýnt sig í að samstarfið með þeim er að ganga vel. Við fengum allt Zodiak Kids-teymið og hóp handritshöfunda hingað til Íslands í ágúst síðastliðnum því við viljum halda í íslensku arfleiðina,“ segir Helga.

„Við tókum hópinn í ferð til að skoða íslenska náttúru, fórum í ævintýralegan leiðangur í hellinn Leiðarenda á Reykjanesi, og fengum frábæran leiðsögumann til að fjalla um álfa og huldufólk og allt þetta skrýtna í íslenskri sögu og náttúru, sem var mjög dýrmætt. Við sjáum það að tengingin er að skína í gegn núna þegar við erum að fá fyrstu handritin.“

Uppskera af því að flýta sér hægt

Helga er ánægð með að þau hafi ákveðið að flýta sér hægt við uppbyggingu Tulipop-vörumerkisins. „Uppbygging svona fyrirtækis er alger rússíbanareið, en það hefur reynst okkur vel að prófa að gera hluti, sjá hvað virkar og hvað ekki, og eitt af því sem við höfum lært er að ætla sér ekki að sigra allan heiminn í einu. Við höfum prófað að fara á sýningar sem voru einfaldlega of stórar og við týndumst í eða fengum pantanir sem við höfðum ekki burði til að fylgja eftir því til að geta selt þarf að vera með manneskju á staðnum sem getur kynnt vörumerkið á tungumáli hvers lands,“ segir Helga.

„Við tókum því strategíska ákvörðun um að leggja áherslu á uppbyggingu ævintýraheimsins og vörumerkisins, leggja áherslu á beina sölu til neytenda og byggja upp innviði félagsins þannig að við værum í stakk búin til að gera nytjaleyfissamninga við öflug fyrirtæki með mikla dreifingu.

Í gegnum árin hafa margir viljað koma í samstarf við okkur til þess að gera teiknimyndir, en við sjáum nú að það var rétt að byggja fyrst upp sterkt vörumerki með breiða vörulínu sem bætti samningsstöðu okkar. Hefðum við gert samning eins og þann sem við gerðum við Zodiak Kids nokkrum árum fyrr þá eru allar líkur á að við hefðum þurft að gefa eftir allavega helminginn af tekjunum af Tulipopvarningnum.

Við sjáum heilmikla möguleika til að þróa heiminn áfram í sem flestum formum þannig að Tulipop aðdáendur um allan heim geti tengst heiminum og persónum hans með sem fjölbreyttustum hætti. Möguleikarnir eru óendanlegir og það hafa til dæmis nú þegar komið að máli við okkur flott erlend fyrirtæki sem hafa rætt möguleikann á að setja upp Tulipop skemmtigarð. Það er ekki alveg tímabært að ræða slík verkefni ennþá, en það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Persónur innblásnar af raunverulegu fólki

„Í sjónvarpsseríunni verða sveppasystkinin Bubble og Gloomy í aðalhlutverki ásamt Fred, en hann er óheflaða skógardýrið í hópnum,“ segir Helga um persónurnar í Tulipop teiknimyndunum sem franska stórfyrirtækið Zodiak Kids mun framleiða með Tulipop.

„Fred, sem talsettur er af Ólafi Darra í bæði íslensku og ensku útgáfunni, kann enga mannasiði en er alltaf til í að fara með Gloomy í einhver ævintýri, meðan Bubble vill hafa allt fínt og snyrtilegt í kringum sig, helst bara vera heima hjá sér og drekka tebollann sinn. Gloomy, sem talsett er af Sölku Sól á íslensku, er svona nett ofvirk, og dregur hann oft út í ævintýri, en hann er enginn vitleysingur heldur nær oft stjórn á hlutunum ef þeir ganga of langt.

Það er gaman að segja frá því að allar persónurnar í Tulipop eru innblásnar af fjölskyldu og vinum Signýjar. Ein þeirra, Mr. Tree sem Laddi talsetur, er eins konar töfratré sem getur breytt tárum í demanta. Hann er mikill safnari og svolítill besserwisser en veit ekki alltaf allt best. Miss Maddy, sem talsett er af Ólafiu Hrönn, er rosalega velviljuð, en hún getur verið svolítið stjórnsöm, ég ætla nú ekki að segja hverjum hún er innblásin af. Í einum af YouTube-þáttunum okkar þá lætur hún Fred sem er alltaf skítugur, fara í bað og nota hársápuna sína, sem endar mjög illa því hann er dýr og virkar á lyktarskyninu.

Loks er Mama Skully, sem er elst í Tulipop, en Guðrún Gísladóttir talar fyrir hana á íslensku. Hún talar oft í véfréttarstíl, og mögulega plantaði hún fræjunum sem urðu að hinum persónunum, en Tulipop er dularfull eldfjallaeyja sem er lauslega innblásin af Íslandi, og varð til í neðansjávareldgosi. Mama Skully er hálfgerð móðir jörð á Tulipop, en í ensku útgáfunni fengum við æðislega perúska leikkonu til að tala fyrir hana með mjög sterkum spænskum hreim.

Það er nefnilega svolítið dularfullur undirtónn í heiminum, en við reynum að hafa skilaboðin jákvæð, leggjum áherslu á fjölbreytileikann og að enginn sé fullkominn. Við gerum það þó án þess að vera með einhverjar predikanir heldur er húmorinn í fyrirrúmi. Markmiðið er að öll fjölskyldan geti horft saman og hlegið, en best finnst mér þegar fullorðið fólk segist hafa fundist þættirnir fyndnir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .