Kría hefur það að markmiði að efla nýsköpun á Íslandi með því að veita fjármagn til vísisjóða sem fjárfesta í þeim nýsköpunarfyrirtækjum sem þeir telja líklegust til árangurs. Þetta er sprota- og nýsköpunarsjóður sem hefur það hlutverk að fjárfesta í svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds), sem síðan fjárfesta í sprotafyrirtækjum.

Markmið sjóðsins er að efla samkeppnishæfni íslenskra sprota og nýsköpunarfyrirtækja með því að skapa fjármögnunarumhverfi fyrir fyrirtækin í samræmi við umhverfið erlendis. Reynslan á öðrum svæðum hafi sýnt að uppbygging á sérhæfðum fjárfestum, sem leggja til fé í áhættusama starfsemi í nýsköpun, sé forsenda þess að hugvitsdrifið atvinnulíf geti byggst upp.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, stjórnarformaður Kríu, segir að með Kríu vilji hið opinbera bæta við þetta fjármögnunarumhverfi með því að koma inn sem stofnanafjárfestir á markaðsforsendum - fylgja markaðnum og bæta súrefni á eldinn þar sem hægt er.

Fjármagnið renni til frumkvöðlanna

Tvö ár eru síðan nýsköpunarstefna, með það að markmiði að treysta grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á Íslandi, var kynnt. „Þar var sérstaklega tilgreint að opinberir aðilar í stuðningsumhverfi nýsköpunar eigi að jafnaði ekki beinan eignarhlut í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og tryggt verði að þeir sem koma að umsýslu slíkra styrkja séu ekki á neinn hátt hagsmunaaðilar hvað varðar þá útdeilingu. Mikilvægt er að fjármagnið renni til frumkvöðlanna frekar en í umsýslu og yfirbyggingu. Í rauninni er það ekki hlutverk okkar að taka ákvarðanir um afdrif fyrirtækja heldur treysta þeim ákvörðunum sem markaðurinn hefur þegar tekið," segir Kristinn.

Kristinn sér fyrir sér að Ísland geti í framtíðinni orðið jafningi hinna Norðurlandanna þegar kemur að nýsköpun. „Ég held að stærðin muni verða kappið okkar og þess vegna ætti kerfið okkar í rauninni að styðja við það að íslensk nýsköpunarfyrirtæki geti orðið alþjóðleg frekar snemma í ferlinu. Halda þarf hugvitinu, eignar- og hugverkaréttinum sem lengst á Íslandi en haga umhverfinu þannig að fyrirtækin geti samt vaxið og opnað skrifstofur annars staðar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .