Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld tekið markviss skref í að bæta samkeppnishæfni íslensks nýsköpunarumhverfis í samanburði við hin Norðurlöndin. Til að mynda voru skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar tímabundið hækkaðar upp í 25-35%, eftir stærð fyrirtækjanna, vegna heimsfaraldursins, en sambærilega styrki má finna á öllum Norðurlöndunum með mismunandi áherslum og hafa hagsmunaaðilar talað fyrir því að þessi breyting verði fest í sessi til frambúðar.

Þá var þak á kostnaði sem telja má til frádráttar hækkað úr 600 milljónum upp í 1,1 milljarð króna. Einnig eru til staðar skattaívilnanir fyrir erlenda sérfræðinga sem einungis þurfa að greiða skatta af 75% af tekjum sínum fyrstu þrjú árin sem þeir starfa á Íslandi. Sú ívilnun er sambærileg þeim sem býðst erlendum sérfræðingum í Svíþjóð.

Íslensk stjórnvöld bjóða einnig upp á margvíslega styrki til rannsókna og þróunar og ber þar helst að nefna Tækniþróunarsjóð, en fjárveitingar til sjóðsins voru hækkaðar úr 2,3 milljörðum króna í 3,6 milljarða árið 2021. Styrkir úr sjóðnum geta numið á bilinu 1.500 til 200.000 evra. Þá býður Rannís einnig upp á ýmsa smærri styrki. Einnig eru til staðar styrkir ætlaðir nýsköpun og sjálfbærni í sjávarútvegi og landbúnaði.

Árangursríkar aðgerðir

Danmörk hefur náð miklum árangri í nýsköðun en eitt helsta framlag danskra stjórnvalda til nýsköpunar er hið svokallaða Startup Denmark verkefni, sem gerir erlendum sérfræðingum kleift að flytja til Danmerkur og stofna fyrirtæki.

Verkefnið hefur margoft fengið viðurkenningu fá Alþjóðabankanum fyrir að liðka til fyrir viðskiptum. Einungis ríkisborgarar utan evrópska efnahagssvæðisins geta sótt um stuðning, sem felst í tveggja ára dvalar- og atvinnuleyfi með möguleika á þriggja ára framlengingum eftir því sem við á. Ekki er um fjárhagsstuðning að ræða, en hann geta frumkvöðlar sótt á öðrum vettvangi ýmist til hins opinbera eða einkaaðila. Þetta verkefni hefur átt þátt í því að mörg af helstu nýsköpunarfyrirtækjum Danmerkur eru stofnuð af útlendingum.

Íslensk fyrirtæki þurfa að hugsa stórt

Helga Valfells, einn af stofnendum Crowberry Capital, segir að ef litið sé til Norðurlandanna í heild sinni einkennist nýsköpunarumhverfið þar af góðu samstarfi stjórnvalda, háskóla og einkageirans. Góðir háskólar og góð rannsóknavinna leggi grunn fyrir nýsköpunarfyrirtækin og menningin sé þannig að starfsmenn séu tryggir sínum fyrirtækjum og vilji stækka með þeim.

Helga segir margt jákvætt við nýsköpunarumhverfið á Íslandi og ekkert sé því til fyrirstöðu að hér verði til einhyrningar. Nýsköpunarfyrirtæki þurfi hins vegar í auknum mæli að hugsa alþjóðlega frá fyrsta degi hvað varðar viðskiptavini og starfsfólk.

„Það er mikilvægt að hugsa markaðinn ekki út frá landfræði heldur út frá því hverjir notendurnir eru," segir Helga.
Varðandi starfsfólk bendir hún á mikilvægi þess að byrja snemma að ráða starfsfólk alls staðar að úr heiminum en ekki einskorða sig við Ísland. Nefnir hún fyrirtækið Lucinity sem dæmi í því samhengi en fyrirtækið réði starfsfólk hvaðanæva úr heiminum frá fyrsta degi og hefur þannig náð góðum alþjóðlegum árangri.

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .