Tap Bauhaus á Íslandi fór úr 141,2 milljónum 2018 í 25,5 milljónir króna á síðasta ári, sem er 81,9% lækkun. Tekjurnar jukust um 12,6%, úr rétt rúmlega 3 milljörðum í rúma 3,4 milljarða króna en rekstrargjöldin jukust um 10,6%, úr vel tæplega 3,1 milljarði í rétt tæpa 3,4 milljarða króna. Þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um 12,2%, úr rúmlega 513 milljónum í 576 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst úr 29 milljónum í 280 milljónir króna með nýju hlutafé, meðan skuldirnar jukust um 11,4%, úr 1,5 millarða í tæplega 1,7 milljarða og eignirnar um 27,7%, úr 1,5 milljörðum í 1,9 milljarða. Hækkaði því eiginfjárhlutfallið úr 1,9% í 14,4% milli áranna 2018 og 2019.

Ásgeir Bachmann er framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, en félagið er í eigu BAHAG Baus Beteiligungsgesellschaft. Lambhagavegur, fasteignafélag í eigu sömu aðila í gegnum eignarhaldsfélagið Anelytsparken Holding A/S, fór úr 160 milljóna króna tapi í 50,4 milljóna hagnað milli áranna 2018 og 2019.

Tekjur félagsins sem heldur utan um fasteignina sem verslunin er staðsett jukust um 9,4% milli ára, úr tæplega 383 milljónum króna í tæplega 419 milljónir króna. Rekstrargjöldin hækkuðu á sama tíma um 2,7%, úr 217 milljónum í 223 milljónir króna, en þar af stóðu afskriftir fastafjármuna í stað, í 142 milljónum tæplega bæði árin.

Eigið fé félagsins jókst um 4,4% milli ára, úr ríflega 1,1 milljarði í rétt tæplega 1,2 milljarða króna, meðan skuldirnar drógust saman um fimmtung, úr tæplega 4,6 milljörðum króna í ríflega 3,6 milljarða króna. Þar með lækkuðu eignir félagsins milli ára um 15%, úr 5,7 milljörðum króna í ríflega 4,8 milljarða króna, meðan eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 20,1% í 24,7%.