Hlutabréfaverð í breska matvælaframleiðandanum Bakkavör hækkaði um 11% í viðskiptum dagsins eftir að félagið greindi frá afkomu sinni á síðasta ári. Gengi bréfa félagsins standa í um 90,6 penníum á hlut en þau fóru lægst undir 50 penní á hlut í september. Gengi bréfa félagsins eru þó 35% lægri en þau voru fyrir ári þegar þau stóðu í 138 penníum á hlut. Tekjur félagsins drógust saman um 4,9% á milli áranna 2020 og 2019, fyrst og fremst vegna heimsfaraldursins.

Í tilkynningu frá félaginu kom fram að sala þess hafi aukist á ný eftir að fyrsta útgöngubanninu á Bretlandi var aflétt. Sölutölur tóku þó dýfu á ný á síðustu þremur mánuðum ársins vegna nýrra takmarkana, sér í lagi í skyndibita sem fólk grípur með sér. Salan í desembermánuði var hins vegar áþekk milli ára.

Í Bandaríkjunum jókst sala um 12,7% á milli ára en dróst saman um 21,6% í Kína. Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá lokaði Bakkavör verksmiðju í Wuhan , þar sem talið er að kórónuveiran hafi fyrst borist í menn. Þó hafi verið jákvæð þróun á síðari helmingi ársins þar sem salan tók að aukast á ný í Kína.

Félagið greip til ýmissa hagræðingaraðgerða til að skera niður kostnað og bæta lausafjárstöðu félagsins í faraldrinum. Því er áætlað að EBITDA rekstrarhagnaður félagsins verði áþekkur og árið 2019 þegar hann nam 138 milljónum punda.

Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, segir í tilkynningu að félagið standi vel og starfsfólk þess hafi unnið þrekvirki í erfiðu rekstrarumhverfi.

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir eiga ríflega 50% hlut í Bakkavör sem metinn er á ríflega 260 milljónir punda, sem samsvarar um 46 milljörðum íslenskra króna.