Sveinn Valfells, framkvæmdastjóri og einn stofnenda íslenska fjártæknifélagsins Monerium, segir að skýrsla sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf út í júlí í fyrra um stafræna peninga sýni fram á að viðskipti með hefðbundna gjaldmiðla á bálkakeðjum geti stuðlað að margskonar hagræði í viðskiptum.

„Það er vegna þess að skiptin á eigninni og peningum eru samþætt. Þau gerast sjálfkrafa, samstundis og á einum stað. AGS nefndu þetta sérstaklega í samhengi við verðbréfaviðskipti en við teljum að margskonar viðskipti á netinu, eins og fjármögnun á útgefnum reikningum, geti líka átt sér stað með svipuðum hætti. Lítil fyrirtæki geta þannig fengið fjármögnun á útgefna reikninga með mun skilvirkari hætti en kerfin í dag bjóða upp á."

Sveinn sér fram á að bálkakeðjur geti gjörbylt fjármálageiranum.

„Þessi tækni mun breyta netviðskiptum og fjármálageiranum. Sú breyting mun þó ekki eiga sér stað á einni nóttu heldur í áföngum, líkt og gerðist t.d. með fréttamiðla á netinu. Blöð á prenti eru enn til og verða það væntanlega áfram en gríðarlega stór hluti af fréttamiðlun hefur færst af pappír yfir í stafrænt form. Með sama hætti munu bálkakeðjur hasla sér völl við hlið núverandi kerfa.

Flest kerfi sem flytja peninga eru frekar lokuð og dýr í rekstri. Með bálkakeðjum er þegar hægt að millifæra peninga jafnhratt, jafnódýrt og jafn örugglega eins og með allra bestu greiðslumiðlunarkerfum heims, til dæmis SEPA. Þau kerfi eru hins vegar ekki aðgengileg flestum venjulegum notendum og þurfa þeir því að fara í gegnum milliliði. Bálkakeðjur eru þegar betri en bestu milliliðirnir hvað varðar tíma, kostnað og öryggi. Til viðbótar bjóða bálkakeðjur upp á þann sveigjanleika að tengja peningafærslur við önnur viðskipti, sem hin kerfin gera ekki. Viðskiptin eru forritanleg eftir opnum stöðlum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .