Bandaríkin hafa nú tilkynnt að þau hyggist opna landamæri sín þann 8. nóvember fyrir bólusettum ferðamönnum. Einnig verður opnað á ferðir bólusettra ferðamanna inn í landið um landamærin við Kanada og Mexíkó. Ferðamenn munu þurfa að sýna fram á neikvætt Covid próf, sem er yngra en 72 tíma gamalt, til að geta farið um borð í flug til Bandaríkjanna. Óbólusettir erlendir ferðamenn munu ekki fá inngöngu í landið en óbólusettir Bandaríkjamenn, sem geta sýnt fram á neikvætt Covid próf, munu fá inngöngu.

Samkvæmt frétt Bloomberg munu Bandaríkin einungis samþykkja bólusetningar sem eru samþykktar af bandaríska lyfjaeftirlitinu eða eru á neyðarlista WHO. Það þýðir að ferðamenn sem hafa fengið bólusetningu AstraZeneca, Sinopharm og Sinovac munu einnig fá inngöngu í landið þrátt fyrir að bandaríska lyfjaeftirlitið hafi ekki enn samþykkt þær bólusetningar. Hins vegar er ekki enn ljóst hvort það sama eigi við um ferðamenn sem hafa fengið blandaðar bólusetningar.