Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur ákvarðað að Hong Kong er ekki lengur sjálfstjórnandi ríki en þetta kemur fram í tilkynningu Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag. Yfirlýsingin gæti haft veruleg áhrif á viðskiptasamband Bandaríkjanna og Kína sem var þegar mjög stirt. WSJ segir frá.

Utanríkisráðuneytið er skylt að meta sjálfsstjórn Hong Kong vegna svokallaðrar Hong Kong Policy Act frá árinu 1992. Ráðuneytið staðfesti til Öldungadeildar Bandaríkjaþings að Hong Kong væri ekki lengur sjálfsstjórnarríki.

„Þessi ákvörðun gefur mér enga ánægju en traust stefnumótun krefst viðurkenningar á raunveruleikanum,“ sagði Pompeo í yfirlýsingunni. „Það er alveg hreint núna að Kína er að móta Hong Kong í sinni líkingu.

Pompeo tók fram að fyrirhuguð þjóðaröryggislög kínverskra stjórnvalda í Hong Kong hafi legið að baki ákvörðuninni. Hann sagði jafnframt að bandarísk stjórnvöld munu halda áfram að styðja íbúa Hong Kong í báráttu þeirra fyrir sjálfsstjórn.

Mikil mótmæli hafa brotist út í borginni á síðustu dögum vegna öryggislaganna en ýmsir aðilar telja kínversk stjórnvöld nýta sér heimsfaraldurinn til að draga úr sjálfstæði héraðsins.