Gengi Bandaríkjadals styrktist í gær og hafði þá ekki verið sterkara síðan í mars árið 2020. Ef fram heldur sem horfir verður þetta besti mánuður gjaldmiðilsins síðan í byrjun árs 2015. Þessi mikla styrking grundvallast á væntingum um að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti til að koma böndum á verðbólguna.

Í gær hækkaði vísitala Bandaríkjadals um allt að 0,8% og fór hæst í 101,88 en undanfarið ár hefur vísitalan hækkað um rúmlega 12%, segir í frétt Financial Times .

Búist er við því að Seðlabanki bandaríkjanna muni herða tökin hraðar en seðlabankar hinna G10 ríkjanna. Hærri stýrivextir og hærri ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa hafa laðað að erlenda fjárfesta til að fjárfesta í bandarískum skuldabréfum.

Þrýstingur á verðbólguna heldur áfram að vaxa en vegna stríðsins í Úkraínu hefur verð á hrávöru hækkað og harðar sóttvarnaraðgerðir kínverskra stjórnvalda vegna fjölda kórónuveirusmita þar í landi gæti haft frekari áhrif á aðfangakeðjur.

Markaðsaðilar búast við því að bandaríski seðlabankinn muni hækka vexti í 2,77% í lok árs. Bandaríkjadalur hagnast vanalega á því að vextir hækki þar í landi og er yfirleitt sterkur þegar mikil óvissa er í heimshagkerfinu því þá leita fjárfestar í öruggt skjól. Aukin ásókn fjárfesta í gjaldmiðilinn keyrir hann upp í takt við ávöxtunarkröfu skuldabréfanna.