Airlines for America, samtök stærstu flugfélaga Bandaríkjanna hafa óskað eftir því við bandarísk stjórnvöld að þau hjálpi félögunum í gegnum yfirstandandi hremmingar. Stjórnarformaður Virgin Group kallar að sama skapi eftir því að bresk stjórnvöld veittu 7,5 milljarða punda lán til að bjarga flugiðnaði landsins.

Ljóst er að ferðabönn, bæði í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu munu nær lama flest flugfélög á næstu misserum. Evrópsk og bandarísk flugfélög hafa þegar dregið úr flugframboð næstu vikur um allt að 90% og gefið í skyn að jafnvel verði flugflota heilu félaganna lagt á meðan ástandið gengur yfir.

Klári allt lausafé á þessu ári

Airlines for America óska er eftir að bandarísk stjórnvöld veiti þeim samanlagt 50 milljarða dollara, jafnvirði, nærri 7.000 milljarðar króna. Óskað er eftir því að helmingurinn, 25 milljarðar dollara verði í formi láns, en hinn helmingurinn í formi beinnar ríkisaðstoðar.

Samtökin segja að öll sjö aðildarfélögin muni verða uppiskroppa með lausafé áður en árið er úti verði ekkert að gert. Innan samtakanna eru meðal annars United Airlines, Delta og American Airlines.

Bandarísk stjórnvöld hafa sagst vera að íhuga að veita bandarískum flugfélögum lausafjáraðstoð. Í umfjöllun Financial Times er bent á að flugfélög í Bandaríkjunum hafi staðið hvað best fjárhagslega af flugfélögum heimsins áður en kórónukreppan skall á. Larry Kudlow, leiðtogi efnahagsráðs Bandaríkjanna (National Economic Council) segir að stjórnin sjái ekki fyrir sér að flugfélög muni fara í þrot en ef þau lendi í lausafjárvandræðum muni stjórnvöld reyna að hjálpa þeim.

Stjórnvöld í Frakklandi, Ítalíu, Noregi, Hollandi, Rússlandi og víðar hafa gefið sambærilegar yfirlýsingar um að þau séu tilbúin að styðja við þarlend flugfélög í vanda. Stuðningurinn á ýmist að vera í formi eftirgjafar á sköttum eða lána á lágum vöxtum.