Bandarísk stjórnvöld hafa keypt nær allar birgðir af lyfinu remdesivir, sem styttir batatíma Covid sjúklinga, af bandaríska líftæknifyrirtækinu Gilead Sciences. Samningurinn tryggir Bandaríkjunum nógu mikið magn fyrir 500 þúsund lyfjakúra, en hver þeirra samanstendur af 6,25 lyfjaflöskum að meðaltali.

Umfang lyfjaskammtanna sem bandaríska ríkisstjórnin hefur tryggt sér jafngildir um 100% af framleiðslu Gilead í júlí, 90% í ágúst og 90% í september. Fyrr í vikunni tilkynnti Gilead að ríkisstjórnum þróaðra landa stæðu til boða að kaupa lyfjaflöskur (e. vial) á 390 dollara fyrir hverja flösku eða um 2.340 dollara fyrir hvern lyfjakúr .

„Trump hefur náð frábærum samningi sem tryggir Bandaríkjamönnum aðgang að fyrsta heimilaða lækningalyfi fyrir Covid-19“, er haft eftir Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, í tilkynningu ráðuneytisins í gær.

Bretland hefur komið sér upp birgðum af lyfinu dexamethasone sem hefur einnig reynst skilvirkt fyrir veikustu Covid sjúklingana, samkvæmt Nadhim Zahawi, viðskiptaráðherra Bretlands. Hann hefði þó viljað sjá meiri alþjóðasamvinnu.

„Besta niðurstaðan fyrir heiminn væri ef við ynnum saman. Með því að keppa gegn hvert öðru, erum við í raun að grafa undan öllum okkar aðgerðum,“ er haft eftir Zahawi í fréttaflutningi BBC .