Frá endurreisn bankakerfisins árið 2008 hafa stóru bankarnir þrír - Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki - hagnast um samtals tæplega 575 milljarða króna. Jafngildir það 175 milljóna króna hagnaði á dag.

Landsbankinn hefur hagnast mest á tímabilinu 2009 til 2017, eða um 215,4 milljarða króna. Þá hefur Arion banki hagnast um 180,8 milljarða og Íslandsbanki um 178,6 milljarða.

Hafa verður í huga að hagnaður bankanna frá hruni endurspeglar ekki afkomu af undirliggjandi rekstri. Stór hluti hagnaðarins er tilkominn vegna óreglulegra þátta tengdra hruninu og eftirmálum þess, svo sem endurmats á útlánasafni bankanna, sölu á yfirteknum eignum og óvissu um lögmæti gengistryggðra lána.

Undanfarin tvö ár hafa áhrif einskiptisliða á afkomu bankanna hins vegar fjarað út, og hagnaðurinn minnkað samkvæmt því. Á móti hefur afkoma bankanna í auknum mæli endurspeglað afkomu af reglulegri starfsemi. Samtals högnuðust bankarnir um 47,4 milljarða króna á síðasta ári, eða því sem nemur lágmarkskostnaði nýrrar borgarlínu, og minnkaði hagnaðurinn um 11,3 milljarða milli ára.

Eignir stóru bankanna þriggja námu rúmlega 3.377 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um 183 milljarða milli ára. Eignir bankanna nema nú um 130% af landsframleiðslu en námu rúmlega áttfaldri landsframleiðsla fyrir áratug síðan. Frá því að bankarnir voru endurreistir hafa þeir aðeins vaxið um tæp 8% að raunvirði. Bankakerfið er nú svipað að stærð og það var á tíunda áratug síðustu aldar, þó að innlánsstofnunum hafi snarfækkað. Íslenska bankakerfið er eitt það minnsta í Evrópu í dag miðað við landsframleiðslu og áþekkt því sem þekkist í ríkjum Austur-Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .