Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans spá báðar 3,1% verðbólgu sem þýðir að hún muni haldast óbreytt frá fyrri mánuði. Að mati sérfræðinga deildanna  mun vísitala neysluverðs (VNV) hækka um 0,2% frá mánuðinum á undan.

Hagstofan birtir ágústmælingu vísitölu neysluverðs (VNV) fimmtudaginn 29. ágúst. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,2% hækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir helst verðbólgan óbreytt í 3,1% milli mánaða. Spá okkar um breytingu vísitölunnar milli mánaða er 0,1 prósentustigi lægri en spá okkar frá því fyrir um mánuði síðan. Skýrist það meðal annars af styrkingu krónunnar síðan þá," segir í Hagsjá Landsbankans.

Útlit er fyrir að verðbólga muni hjaðna nokkuð á næstu ársfjórðungum vegna hægari hækkunar íbúðaverðs og væntinga um hóflegar launahækkanir. Við spáum því að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans í lok ársins og mælast 2,4% í desember," segir í greiningu Íslandsbanka.

Árstíðarbundin lækkun flugfargjalda

Í greiningu Íslandsbanka segir að sá liður sem dragi verðbólguna mest niður í þessum mánuði séu ferðir og flutningar.

Sá liður sem dregur verðbólguna hvað mest niður til lækkunar í mánuðinum eru ferðir og flutningar. Við spáum því að liðurinn lækki í heild um 1% (-0,15 í VNV) í ágúst. Þar ber helst að nefna árstíðarbundna lækkun á flugfargjöldum en við spáum því að flutningar í lofti lækki um 8% (-0,14%). Einnig lækkar verð á eldsneyti í mánuðinum um 0,75% (-0,03% í VNV)."

Í Hagsjá Landsbankans segir að að öllum líkindum verði um 10% ódýrara að fljúga í ágústmánuði í ár en á sama tímabili 2018.

Flugfargjöld til útlanda lækka venjulega milli mánaða í ágúst vegna árstíðarsveiflu. Við búumst við að þessi liður lækki um 5% milli mánaða núna í ágúst. Gangi það eftir var u.þ.b. 10% ódýrara að fljúga í ágústmánuði í ár en á sama tímabili 2018. Til samanburðar var 12% ódýrara að fljúga til útlanda í júlí 2019 en í júlí 2018."