Greiningardeildir stærstu bankanna þriggja hafa allar spáð óbreyttum vöxtum, en stýrivaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands verður kynnt eftir nokkrar mínútur, eða klukkan 9:00 í dag.

Landsbankinn segir í sinni spá að ljóst sé að sveiflur í gengi krónunnar síðan fjármagnshöftin voru formlega afnumin um miðjan mars ásamt veikingu krónunnar hafi gert peningamálastjórnunina hér á landi að meiri áskorun en áður. Bendir bankinn á að gengisvísitalan hafi hækkað um 12% frá síðasta fundi og því athyglisvert að sjá hve framvirk leiðsögn nefndarinnar verður.

Ákvörðunin sem kynnt verður í dag verður að þessu sinni byggð á uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá samfara útgáfu nýrra peningamála. Íslandsbanki telur að versnandi verðbólguhorfur og því minna aðhald peningingastefnunnar geri gæfumuninn í því að vextirnir verði óbreyttir.

Greiningardeild Arion banka segir að þó áfram sé útlit fyrir litla verðbólgu muni framleiðsluspennan fara dvínandi sem ásamt öðrum þáttum valdi því að peningastefnunefndin muni sitja á sér að gera breytingar að þessu sinni. Því spá allir bankarnir áfram haldandi 4,5% meginvöxtum.