Þótt áhrif kórónufaraldursins á stóru bankana hafi verið óumflýjanleg, og um háar tölur sé að ræða – 18 milljarða samanlagða virðisrýrnun og fjármunatap – standa þeir heilt yfir nokkuð vel að vígi.

Eiginfjárstaða þeirra er sterk, og þegar hefur verið ráðist í hagræðingaraðgerðir til að styrkja grunnreksturinn. Virðisrýrnun lánasafnsins byggir auk þess á væntu útlánatapi, og lýsir því ekki aðeins því tapi sem átti sér stað á uppgjörstímabilinu, heldur felur hún í sér fyrirframfærslu þess taps sem búast má við á komandi misserum vegna ástandsins.

Þó ber þess að geta að virðisrýrnun fjórðungsins byggir á gömlum og bjartsýnni sviðsmyndum en þeim sem horft er til í dag. Því er viðbúið að þónokkur virðisrýrnun verði einnig á yfirstandandi ársfjórðungi.

Ekki líkur á fjármálakrísu þrátt fyrir högg á afkomu og eigið fé
„Það náttúrulega blasir við að einhverjar atvinnugreinar, ferðaþjónustan sérstaklega, standa frammi fyrir miklum hremmingum næstu mánuði. Það mun auðvitað skila sér í einhverjum mæli til lánveitenda,“ segir Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en auk beinna áhrifa muni hrakfarir ferðaþjónustunnar hafa afleidd áhrif á greinar henni tengdar á borð við verktaka.

Gylfi segist þó ekki geta séð að hremmingarnar muni hafa þannig áhrif á bankana að úr verði fjármálakrísa samkvæmt neinni líklegri sviðsmynd eins og staðan er í dag.

„Þetta mun hafa áhrif á þeirra rekstur, en það er mjög erfitt að sjá að höggið verði af þeirri stærðargráðu að þeir lendi í vandræðum. Bæði eru þeir með mjög hátt eiginfjárhlutfall, og svo liggur fyrir að þeir munu geta treyst á Seðlabankann varðandi lausafé, en lausafjárstaða þeirra er auk þess ágæt í dag.“

Hann segir það hins vegar ekki breyta því að bankarnir standi frammi fyrir þungu höggi á afkomu sína og eigið fé, enda hafi allar alvarlegar efnahagskrísur óhjákvæmilega áhrif á fjármálakerfið. „Þegar atvinnuástand versnar og tekjur lækka þá aukast vanskil og jafnvel útlánatöp hjá einstaklingum, en það er ábyggilega mjög erfitt að leggja mat á það núna, meðan óvissan um framhaldið er eins mikil og hún er.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .