Framkvæmdastjórar hjá stóru viðskiptabönkunum þremur, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, telja bankana vel í stakk búna til að mæta því útflæði fjármagns sem gæti átt sér stað í kjölfar næstu skrefa í losun fjármagnshafta. Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir 120 til 285 milljarða króna útflæði fjármagns í tengslum við skrefin sem tekin verða ef frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra verður að lögum. Þetta kemur fram í greiningu sem bankinn birti á dögunum.

Lausafjárstaðan góð

Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Íslandsbanka, telur bankann vera vel í stakk búinn fyrir næstu skref í losun fjármagnshafta. Hann býst þó við því að Seðlabankinn hafi ofmetið hættuna á útflæði.

„Þetta var mjög góð greining hjá þeim og nokkuð vel undirbúin. Ég held að sviðsmyndirnar sem þeir setja fram séu í brattari kantinum og að það verði eitthvað minna útflæði, fyrst og fremst vegna þess að fjárfestingarkostir erlendis eru ekki endilega spennandi í augnablikinu,“ segir Jón Guðni. Íslandsbanki sé í öllu falli vel undirbúinn hvað lausafjárstöðu varðar.

„Lausafjárhlutfallið hjá okkur er 173% og lágmarkið hjá Seðlabankanum er 100% þannig að við erum með mjög sterka stöðu fyrir þetta allt saman. Undir þessum sviðsmyndum öllum erum við ennþá vel yfir lágmarkinu.“

Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum, bendir einnig á að lausafjárhlutfall bankans sé sterkt og vel yfir viðmiði Seðlabankans. Hlutfallið er 123% samkvæmt uppgjöri Landsbankans fyrir fyrri helming ársins.

„Bankinn hefur gert álagspróf sem meta hversu miklar líkur eru á ákveðnu útflæði. Lausafjárstaða bankans er sterk og bankinn því vel í stakk búinn til að mæta slíku,“ segir Perla.

Gísli Sigurbjörn Óttarsson, framkvæmdastjóri áhættustýringarsviðs hjá Arion banka, segir að greining á mögulegu útflæði sé afar vandasöm en telur forsendur Seðlabankans ágætar. Hann segir Arion banka lengi hafa undirbúið sig fyrir losun hafta og að lausafjárstaðan sé góð. Frá stofnun bankans hafi það verið meginmarkmið að standa ekki í vegi fyrir áformum um afléttingu hafta og að því hafi fylgt töluverður tilkostnaður í ljósi þess að laust fé sé dýr ráðstöfun.

„Arion banki er tilbúinn og hefur í raun aldrei verið tilbúnari. Stöðugleikasamkomulögin hafa hjálpað mikið til,“ segir Gísli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .