Bent Dalager leiðir ráðgjöf KPMG á Norðurlöndunum á sviði tækniþróunar í fjármálaþjónustu. Hann segir umræðuna um fjórðu iðnbyltinguna oft á tíðum mjög litaða af bölsýnisspám um hve margir muni missa vinnuna, en að mati Bents eru þessar áhyggjur oftar en ekki orðum auknar. Reynslan sýni þvert á móti að líklega komi eftirspurn eftir starfsfólki með að aukast með nýrri tækni, ekki öfugt.

„Tökum fjármálaþjónustuna aftur sem dæmi. Með tilkomu tækni sem getur yfirfarið allar færslur er líklegt að eftirlitsaðilar geri kröfur um að allar færslur verði yfirfarnar í framtíðinni. Þannig fjölgar gjarnan verkefnum þegar ný tækni er tekin í gagnið og samhliða eykst eftirspurn eftir starfsfólki. Það sem áður var því tækifæri til að hagræða kann svo síðar að leiða til aukins kostnaðar hjá þeim sem ekki hafa tileinkað sér nýja tækni og vinnubrögð.

Þessi hlið vill stundum gleymast þegar fjórða iðnbyltingin er til umræðu og svartsýnar spár um hið gríðarlega atvinnuleysi sem sé í væntum eru oftar en ekki byggðar á mjög veikum forsendum. Gott dæmi um þetta er úr byggingariðnaðinum. Í dag væri margfalt dýrara að byggja Empire State en það var fyrir níutíu árum. Samkvæmt kostnaðargreiningu er byggingakostnaður nú ríflega tífalt hærri en hann var fyrir níutíu árum síðan og hið sama gildir einnig um byggingatímann, sem er líka tífalt lengri nú en þá. Ástæðan er sú að byggingarkröfur hafa aukist ár frá ári samhliða því sem tækninni fleygir áfram og fyrir vikið verða byggingarframkvæmdir æ flóknari og dýrari með hverju árinu.

Það sama mun eiga sér stað með tilkomu gervigreindar í fjármálaþjónustu. Flækjustigið mun aukast, regluverkið stækka og kröfur á banka verða bæði meiri og fleiri. Samhliða gæti eftirspurn eftir starfsfólki í fjármálaþjónustu aukist. Sjálfur hef ég meiri áhyggjur af því að starfsfólki komi til með að fjölga of mikið en að því fækki,“ segir Bent að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .