Eftirlitsstofnun EFTA hefur fengið staðfestingu EFTA dómstólsins á niðurstöðu sinni um að núgildandi löggjöf á Íslandi um bann við innflutningi á fersku kjöti frá öðrum EES ríkjum sé í andstöðu við EES samninginn.

Segja Samtök Verslunar og þjónustu sem sendu upphaflega kvörtun vegna málsins að með ákvörðuninni hafi ESA tekið undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins að því er segir í fréttatilkynningu.

Hæstiréttur úrskurðar á næsta ári

EFTA-dómstóllinn kvað fyrr í dag upp dóm sinn þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti og er niðurstaðan því í fullu samræmi við upphaflega kvörtun SVÞ. SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018.

SVÞ fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er enn einn áfangasigur í baráttu samtakanna í máli þessu sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu.

Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.