Bókaútgáfan Angústúra var stofnuð af Maríu Rán Guðjónsdóttur og Þorgerði Öglu Magnúsdóttur í Vesturbænum á þessu ári. Markmið útgáfunnar var að opna glugga út í heim með útgáfu spennandi og fallegra bóka frá öllum heimshornum í vönduðum þýðingum.

Þrátt fyrir að útgáfan sé hálfgert sprotafyrirtæki, búa þær María og Þorgerður yfir mikilli reynslu. María vann áður hjá Crymogeu og Agla hjá Miðstöð íslenskra bókmennta. Til gamans má geta að mömmur þeirra voru bestu vinkonur í Hjúkrunarskólanum á sínum tíma, en þrátt fyrir það kynntust þær ekki fyrr en á fullorðinsárum og það í gegnum bókabransann.

Ómótstæðilegar uppskriftir

Fyrsta bókin sem Angústúra gefur út er Ómótstæðileg Ella. Um er að ræða matreiðslubók sem kynnir lesendur fyrir einföldum og ljúffengum jurtafæðisuppskriftum fyrir alla sem vilja góða orku og jafnan blóðsykur. Bókin sló í gegn þegar hún kom út árið 2015 í Bretlandi, en hún hefur nú verið gefin út í 20 löndum. Satt að segja naut bókin svo mikilla vinsælda að það þurfti að endurprenta hana 6 sinnum fyrir forsöluna.

Bókin er skrifuð af Ellu Mills, en hún er ein skærasta stjarna Bretlands á sviði matargerðar. Hún hóf feril sinn sem matarbloggari árið 2011 þegar hún ákvað að skipta alveg yfir í glúten- og mjólkurlaust jurtafæði eftir að hafa skyndilega fengið stöðubundna hjartsláttartruflun sem lýsir sér með ógeði, svima, orkuleysi og sjóntruflunum.

Tveimur árum síðar var hún einkennalaus og hefur hún síðan þá leiðbeint öðrum varðandi mataræði í gegnum bloggið sitt og matreiðslubækurnar sem hún hefur skrifað. Bloggið fær yfir 5 milljón heimsóknir á mánuði og tæplega milljón manns fylgja henni á Instagram.

Óvænt matarást

Matarást Ellu kom foreldrum og vinum hennar verulega á óvart, en hún hafði aldrei áður eldað og hafði alltaf haft lítinn áhuga á matargerð. Þegar hún fór að sjá hversu miklum árangri og vellíðan gott mataræði skilaði, vann matreiðslan hug hennar og hjarta.

Ella rekur tvo veitingastaði í London og framleiðir vörur undir eigin nafni, auk þess sem Neal's Yard Remedies hefur hafið framleiðslu á kremum frá Ellu, en fyrirtækið sérhæfir sig í lífrænum náttúrulegum snyrtivörum. The Guardian hefur áður fjallað um Ellu og spá því að hún muni mynda viðskiptaveldi á næstu árum.

Mataræði Ellu er fyrir alla fjölskylduna, líka þau sem eru vegan eða á glúten- og mjólkurlausu fæði og síðast en ekki síst fyrir þau sem vilja góða orku og jafnan blóðsykur. Boðskapur hennar er í raun: Engar öfgar, bara gleði og vellíðan. Samkvæmt Maríu Rán er Ella ekki að reyna að sannfæra fólk um eitt né neitt, heldur bendir hún á leiðir sem hafa virkað fyrir hana og hvetur fólk til þess að prufa sig áfram.

Uppskriftir fyrir öll tilefni

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði María uppskriftirnar henta öllum tilefnum. Bókin er flokkuð eftir helstu hráefnunum sem notuð eru. Finna má sérstakar uppskriftir sem nota aðallega korn, hnetur og fræ, baunir, grænmeti og ávexti. Einnig má finna uppskriftir fyrir sérstaka þeytinga og safa.

Samkvæmt Maríu, elskar Ella að bjóða vinum foreldra sinna í mat, enda séu það einstaklingar sem séu oft ómótækilegir fyrir nýjungum. María telur bókina einnig henta vel fyrir jólaundirbúninginn, því þar sé að finna ljúffengar uppskriftir sem passi vel með öðrum mat. Allt snýst þetta út á að fikta sig áfram og finna ljúffengar samsetningar, sem bæta og kæta.