Bandarísk stjórnvöld herða nú aðgerðir sínar til að tryggja aðgang bandarísks iðnaðar að góðmálmum sem gegna lykilhlutverki í tæknibúnað ýmis konar, en kínversk fyrirtæki hafa náð undirtökunum á þeim markaði á síðustu áratugum.

Umhverfisstaðlar ýmis konar sem ekki eru til staðar í Kína hefur gert það að verkum að bandarísk og önnur vestræn fyrirtæki hafa mikið til hætt að grafa upp ýmsa málma sem eru nauðsynlegir í smíði rafbíla, snjallsíma og rafmótora í vindmyllum sem dæmi, en nú hyggst Donald Trump Bandaríkjaforseti snúa þar við blaðinu.

Í síðustu viku gaf forsetinn út tilskipun sem lýsti yfir neyðarástandi sem gaf honum þar með heimild til að nýta löggjöf um framleiðslu í varnarskyni til að flýta því að hægt væri að opna námur í landinu.

Sama löggjöf var nýtt fyrr á árinu til að flýta framleiðslu lækningabúnaðar ýmis konar til varnar heimsfaraldri kórónuveirunnar. Í heildina hafa 35 fágætir góðmálmar verið listaðir upp sem lykilatriði í því að tryggja þjóðar- og efnahagslegt öryggi.

Tekur tíu ár að koma námu í gagnið

Sem liður í aðgerðunum virðist sem fjárfestingarsjóður á vegum bandarískra stjórnvalda hafi sett 25 milljón dala í írska fyrirtækið TechMet sem framleiðir og endurvinnur nikkel og kóbalt úr rafhlöðum.

Þó greinendur og námuiðnaðurinn fagni áformum Bandaríkjaforseta hafa þeir varað við því að það taki 10 ár að koma námu í gang, og enn vanti tilfinnanlega að hægt sé að vinna úr málmunum á vesturlöndum.

„Það er margra ára verkefni að losa um alger yfirráð Kína á markaði fyrir fágæta góðmálma,“ hefur WSJ eftir forstjóra Tech Met, Brian Menell. „Það eru engar skyndilausnir.“

Kína stýrir allri virðiskeðjunni

Yfirburðarstaða Kína á mörkuðum með þessa góðmálma hefur aukist á síðustu áratugum og geta kínversk fyrirtæki nú stýrt allri virðiskeðjunni með málmana, það er bæði grafið eftir þeim og unnið úr þeim. Það á til að mynda við um málma sem notaðir eru til framleiðslu á seglum, en það sama á við um einungis eitt vestrænt fyrirtæki, hið kanadíska Neo Performance Materials ULC, í dag.

Í tilskipun Trump Bandaríkjaforseta er kallað eftir mati á því hversu háð Bandaríkin eru Kína til að tryggja aðgang að mikilvægum góðmálmum. Hyggjast stjórnvöld veita styrki og lán til að koma á fót fyrirtækjum í framleiðslu og vinnslu málmanna. Jafnframt er mögulegt að komið verði á tollum og kvótum á innflutningi málmanna frá Kína.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem áhyggjur af stöðunni hafa vaknað vestanhafs, en stjórnvöld þar hafa lýst þeim yfir í tvo áratugi án þess að nokkur árangur hafi náðst til að breyta henni. Þannig kvartaði stjórn Obama fyrrum forseta Bandaríkjanna til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WHO, vegna takmarkana Kína á útflutningi á hinum fágætu málmum.

Strax árið 2017 hóf stjórn Trump að kalla eftir stefnumörkun til að draga úr því hversu háð Bandaríkin eru að fá málmana óhindrað frá Kína, og hafa stjórnvöld síðan þá niðurgreitt nokkur verkefni til að tryggja aðgang.

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna er að þróa vinnslu í námu í Kaliforníuríki, sem og að styðja við verksmiðju sem getur aðskilið málma í Texas. Jarðfræðistofnun Bandaríkjanna hefur fjárfest um 30 milljónum dala í rannsóknir á mögulegum vinnslusvæðum.

Evrópusambandið hefur sömuleiðis sett á fót stefnumörkun til að auka við uppgröft og vinnslu 30 fágætra málma. Kanada og Ástralía hafa einnig gripið til aðgerða, með niðurgreiðslum og lánveitingum.