Gengi hlutabréfa bókaverslunarkeðjunnar Barnes & Noble hefur hækkað um 14,8% það sem af er degi eftir að fjárfestingafyrirtækið Sandell Asset Management hvatti stjórn fyrirtækisins til að leita yfirtökutilboða í fyrirtækið. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Í bréfinu sem Sandell sendi stjórn félagsins segir að Barnes & Noble sé „eina raunverulega bókaverslunarkeðjan" í Bandaríkjunum og að hefðbundnar bækur og bókaverslanir muni ekki hverfa á næstunni. Bætti Sandell því við að fyrirtækið væri undirverðlagt en sagði fjárfesta vera hrædda við samkeppni frá netverslunum á borð við Amazon. Í bréfinu kom einnig fram að Sandell verðmetur bókaverslunarkeðjunnar á 12 dollara á hlut en gengi bréfa félagsins stendur nú 8,15 dollurum á hlut.

Vörusala Barnes & Noble hefur farið minnkandi á undanförnum árum og hefur fyrirtækið orðið fyrir miklum áhrifum af samkeppni við Amazon. Gengi hlutabréfa félagsins hefur lækkað um rúm 75% á síðustu tveimur árum.