Nýsköpunarvikan hefst í dag og stendur til 7. október. Með hátíðinni gefst frumkvöðlum og fyrirtækjum meðal annars tækifæri til að kynna starfsemi sína en í ár fer hún að hluta til fram stafrænt. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Setningin hefst klukkan 15.00 sem hægt verður að fylgjast með í streyminu hér að neðan. Meðal þeirra sem taka til máls verða Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Markmið vikunnar eru þríþætt. Í fyrsta lagi að vekja athygli á nýsköpun sem á sér stað innan stærri fyrirtækja hér á landi og draga fram sérstöðu þeirra. Í öðru lagi að koma á samtali milli frumkvöðla, sprotafyrirtækja og almennings og veita innsýn í sköpunarferlið sem liggur að baki ólíkum fyrirtækjum. Og í síðasta lagi er stefnt að því að Nýsköpunarvikan skapi sér sess til framtíðar sem vettvangur fyrir erlenda aðila sem vilja kynnast nýsköpun á Íslandi, tengjast sprotum, fjárfestum og frumkvöðlum og mynda ný viðskiptasambönd og tengsl.

„Í árferði sem þessu er mikilvægt að ýta undir nýsköpun, því með skapandi hugsun getum við lyft okkur hraðar upp úr þeirri efnahagslegu dæld sem við erum nú í vegna COVID-19. Við erum afar ánægð með móttökurnar sem Nýsköpunarvikan hefur fengið meðal fyrirtækja í geiranum, sem sjást hvað skýrast í því hversu fjölbreytta og marga samstarfsaðila við fengum með okkur,“ segir Edda Konráðsdóttir, ein af stofnendum hátíðarinnar.