Arion banki hefur á síðustu árum markað sér sérstöðu í íslenska fjármálakerfinu. Bankinn er leiðandi í stafrænni þróun, sem og í þróun á vörum og þjónustu. Þá hefur hann verið í fararbroddi í umhverfis- og jafnréttismálum og hlotið viðurkenningar fyrir áherslur sínar í þeim.

Áramót 2021/2022
Áramót 2021/2022

Tæp fjögur ár eru síðan ríkissjóður seldi 13% hlut sinn í bankanum og í byrjun sumars 2018 var bankinn skráður á markað hér heima og í Svíþjóð. Var það fyrsta skráning banka á aðallista Kauphallarinnar í 10 ár.

Sumarið 2019 settist Benedikt Gíslason í bankastjórastólinn og Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason varð aðstoðarbankastjóri. Frá þessum tíma hefur orðið algjör viðsnúningur í rekstri bankans, sem hafði orðið fyrir áföllum og þá sérstaklega þegar kemur að lánsafninu. Nýir stjórnendur fóru í hagræðingaraðgerðir og breyttu skipulagi bankans með því til dæmis að sameina fyrirtækjalána- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Á undraskömmum tíma hefur Arion banki farið úr því að vera með minnstu arðsemi stóru bankanna þriggja í að vera með bestu arðsemina. Hluthafar bankans njóta góðs af þessu og í lok árs verða þeir búnir að fá 36 milljarða króna í formi arðs og endurkaupa bankans á eigin bréfum.

Benedikt Gíslason og Arion banki hljóta Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2021.

Verkfræðingur í fjármálageiranum

Benedikt, sem er fæddur árið 1974, útskrifaðist með C.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998. Segja má að frá útskrift hafi hann nánast eingöngu starfað í fjármálageiranum.

Útskriftarárið hóf hann störf hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA), þar sem hann starfaði til ársins 2001 en FBA sameinaðist Íslandsbanka árið 2000. Næsta áratuginn gegndi Benedikt ýmsum stjórnunarstöðum. Hann starfaði hjá Straumi fjárfestingafélagi frá 2001 til 2004. Frá 2004 til 2007 var hann framkvæmdastjóri hjá Straumi fjárfestingarbanka og 2007 til 2008 framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group. Eftir það fór Benedikt aftur til Straums þar sem hann starfaði til ársins 2011 en þá tók hann við sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka.

Árið 2013 var Benedikt ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra þar sem störf hans snerust aðallega um ráðgjöf um framkvæmd áætlunar um losun gjaldeyrishafta. Var hann varaformaður starfshóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Frá 2016 til 2018 sat Benedikt í stjórn Kaupþings og þá sem ráðgjafi félagsins í málefnum Arion banka. Árið 2018 tók hann sæti í stjórn Arion banka og sumarið 2019 var hann ráðinn bankastjóri.

Venjulega eru Viðskiptaverðlaunin formlega afhent í árlegu boði, sem haldið er á milli jóla og nýárs samhliða útgáfu tímaritsins Áramóta. Vegna sóttvarnaaðgerða og fjöldatakmarkana í tengslum við þær var ekki unnt að halda slíkt boð að þessu sinni.

Ítarlegt viðtal við Benedikt Gíslason er í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .