Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, segir sterkt gengi krónunnar vera farið að ógna íslenskum fyrirtækjum og þar með störfum. Íslenska krónan er nú sterkari en hún hefur verið í rúman áratug, en gengi hennar hefur styrkst jafnt og þétt síðustu vikur, þvert á væntingar ráðamanna við tilkynningu um afnám fjármagnshafta í mars síðastliðnum.

Benedikt telur lausnina við ofrisi krónunnar að tengja hana við aðra gjaldmiðla, þrátt fyrir viðvaranir erlendra sem innlendra hagfræðinga um að þannig missi hagkerfið helsta mælikvarða og sveiflujöfnunartæki sitt, sem geti valdið enn meiri vanda við næstu niðursveiflu.

Sagði hann síðast á fundi á Siglufirði á laugardag verða var við ótta atvinnurekenda við háu gengi krónunnar, að því er RÚV greinir frá. „Þetta hefur gerst ennþá hraðar en maður óttaðist," segir Benedikt.

„Þar var margt fólk sem er í útgerð eða öðrum útflutningi. Fólk er nánast skelfingu lostið yfir því hvað krónan er orðin sterk núna á þessum undanförnum mánuðum, hvað þá ef við horfum á undanfarin tvö ár.“ Sterk króna hafi vissulega hjálpað heimilum og launafólki með ódýrari innflutningi og utanlandsferðum.

„Á sama tíma er þetta að grafa undan fyrirtækjunum og þá er þetta að verða ógn við atvinnu fjölmargra einstaklinga. Ísland er ekki jafn samkeppnishæft og það ætti að vera og þá erum við komin á hættulegar slóðir."