Hingað til hafa landsmenn verið hvað duglegastir við að nota ferðagjöfina sína á þessu ári hjá N1, Sky Lagoon, Olís og KFC, fyrir samtals 52 milljónir króna að því er fram kemur á Mælaborði ferðaþjónustunnar.

Landsmenn hafa eytt um 18 milljónum króna af ferðagjöfinni hjá N1, næst á eftir eru Sky Lagoon með 13 milljónir, Olís með 12 milljónir og KFC með 9 milljónir. Þá komast Jarðböðin á Mývatni og Vök böðin við Egilsstaði einni á topp tíu listann.

Topp tíu listinn núna er í ágætis samræmi við ferðagjöfina frá síðasta sumri en þá voru Olís, N1 og KFC til að mynda einnig í topp fjórum sætunum.

Ferðagjöfin hefur oftast verið notuð hjá veitingastöðum eða að upphæð 73 milljónum króna, 52 milljónum króna var eytt í afþreyingu, 38 milljónum í samgöngur og 35 milljónum í gistingu.

Hingað til hafa 85.626 ferðagjafir verið sóttar og þær notaðar í 44.769 skipti fyrir 215 milljónir króna.