Bensínlítrinn kostar nú allt að 247,9 krónur en líkt og sjá má á vef Gasvaktarinnar hefur olíuverð hér á landi hækkað nokkuð duglega að undanförnu með hækkandi heimsmarkaðsverði.

Hæsta olíuverðið er á völdum stöðvum N1, þar sem bensínlítrinn kostar 247,9 en lægsta verðið má finna hjá Costco, þar sem bensínlítrinn kostar 199,9 krónur.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá um helgina náðu á dögunum framvirkir samningar um olíu hæsta verði frá árinu 2019 , en á fimmtudag ákváðu OPEC ríkin og bandamenn óvænt að skerðingum á framleiðslu skyldi fram haldið út aprílmánuð. Sádi-Arabía framlengdi sömuleiðis framleiðsluskerðingar út apríl, en þær áttu að renna út um næstu mánaðamót.