Það er óskiljanlegt að borgarstjóri og meirihlutinn gefi eigur Reykjavíkurborgar þegar borgarsjóður er tómur og borgin er rekin á lánum,“ sagði Vigdís Hauksdóttir um lóðir á Gufunesinu í bókun á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur á miðvikudaginn.

Á fundinum var farið yfir umsókn um breytingu á deiliskipulagi sem felst í skiptingu lóðar í tvo hluta hjá kvikmyndaþorpi 1, reit C. GN Stuidios, félag Baltasars Kormáks, keypti lóðir og byggingarrétt undir kvikmyndaþorpið og íbúðir í lok árs 2017. Var kaupverðið 1,64 milljarðar króna og fékk Baltasar 10% afslátt, að því er Fréttablaðið greindi frá.

Salan var gagnrýnd af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar á sínum tíma sem töldu verðmæti lóðanna vera meira. Að þeirra mati hefði hagsmunum borgarbúa verið betur gætt ef lóðirnar hefðu verið boðnar út, frekar en að samið hefði verið við einn ákveðinn aðila.

„Það er hreint með ólíkindum að einkaaðila eru afhend gæði á spottprís eins og þetta stóra landflæmi í Gufunesi sem nú gengur kaupum og sölum til annarra einkaaðila til uppbyggingar. Þetta mál allt lyktar af spillingu,“ sagði Vigdís á fundinum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata lögðu fram gagnbókun þar sem Vigdís var hvött til að leita til efnahagsbrotadeildar lögreglu telji hún sig hafa upplýsingar um spillingu eða refsiverða háttsemi.

„Bestu þakkir fyrir ábendinguna – hugmyndin er mjög góð. Gæði, lóðir og auðlindir Reykjavíkur má aldrei gefa eins og gert var með Gufunesið,“ svaraði Vigdís.