Wildness er sjálfbært útivistarfatamerki sem notar efni framleitt úr endurunnu plasti, fiskinetum úr sjónum og lífrænum efnum. Merkið er einn þeirra níu sprota sem valdir voru til þátttöku í Startup Supernova-viðskiptahraðlinum sem Icelandic Startups sér um.

„Það er fyrirtæki sem heitir Healthy Seas sem tekur fiskinetin og plastið úr sjónum, sem fer frá þeim til annars fyrirtækis sem sérhæfir sig í að endurvinna plast og framleiðir efnið sem við erum að vinna með í fatnaðinn okkar. Fatnaðurinn er svo saumaður af litlu fjölskyldufyrirtæki í heimabæ Filips og Lukasar, sem er pínkulítill fjallabær í Tékklandi. Við viljum að öll framleiðslan, allt frá því að fiskinetið er dregið úr sjónum, sé 100% umhverfisvæn og þessi fyrirtæki sem við vinnum með eru með alþjóðlegar umhverfisvottanir. Við vitum alltaf alveg nákvæmlega hvaðan efnið sem við notum kemur," segir Víðir Björnsson, einn þriggja eigenda Wildness.

Hann segir Wildness leggja áherslu á að hönnun fatnaðarins sé hversdagsleg.

„Við leggjum áherslu á að fólk geti mætt í skyrtu frá okkur í vinnuna og brunað svo beint upp í fjall án þess að þurfa að skipta um föt. Mikið af útivistarfatnaði er rosalega litríkt og stíllinn þannig að maður færi kannski ekki í honum í matarboð. Okkar hönnun er ætlað að vera hversdagsleg og stílhrein, í okkar huga getur fólk alveg verið pínu smart þótt það sé að fara upp í fjall."

Vilja leggja hönd á plóg

Hugmyndin að Wildness kviknaði fyrst hjá tékknesku tvíburunum Filip og Lukas Polách, sem eiga Wildness ásamt Víði.

„Þeir voru atvinnuskíðamenn í Tékklandi og fundu fyrir því að snjórinn minnkaði stöðugt milli ára og hugsuðu með sér að það væri líklega vegna hlýnunar jarðar. Vegna snjóleysisins í Tékklandi ákváðu þeir að flytja hingað til Íslands til þess að geta haldið áfram að skíða. Þeir veltu þessu mikið fyrir sér og fóru að hugsa um hvort þeir gætu ekki gert eitthvað í þessu, lagt hönd á plóg til að draga úr hlýnun jarðar," segir Víðir.

Hann segir tvíburana hafa verið með hugmyndina í kollinum í um fjögur ár en sjálfur hafi hann komið inn í hópinn fyrir rúmlega hálfu ári.

„Við erum allir brimbrettastrákar og ég kynntist þeim bara úti í sjó hérna á Íslandi, þar sem ég var alltaf að rekast á þá. Við fórum svo að hanga meira saman og fara í alls konar leiðangra, en við spjölluðum mikið um hvað við bærum mikla virðingu fyrir náttúrunni og hvort við gætum ekki gert eitthvað til þess að leggja okkar af mörkum í umhverfismálum. Þeir voru þá búnir að vera að hanna stöku flíkur og láta sauma og þar sem við erum allir svo miklir útivistarfíklar ákváðum við að kýla á það að hanna okkar eigin útivistarfatnað með því að nýta plast úr sjónum."

Hraðallinn hraðar ferlinu

Hann segir að eftir að hann slóst í lið með þeim hafi þeir farið að einbeita sér að hugmyndinni af alvöru.

„Við ákváðum að sækja um í Startup Supernova og núna erum við fyrst að ná að vera allir 100% í þessu og hlutirnir farnir að gerast. Við erum að klára að framleiða flíkurnar sem eru gerðar úr fiskinetum þannig að þær eru á leiðinni, þannig að ég myndi segja að við værum bara rétt að byrja núna."

Viðskiptahraðallin hafi þannig verið lyftistöng fyrir sprotann. „Það má segja að þetta hafi verið almennilegt spark í rassinn. Við höfum svo mikinn tíma til þess að vinna í þessu og svo erum við að mynda alveg rosalega öflugt tengslanet hér með því að hitta allt þetta fólk og alla þessa frábæru mentora. Hraðallinn er að flýta mikið fyrir öllu og er bara algjör snilld."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .