Tekjuaukning hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, dótturfélags Nýherja, var 40% frá því á sama ársfjórðungi í fyrra, samkvæmt nýbirtri rekstrarniðurstöðu fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2016.

Er þá miðað við tekjur þess í Bandaríkjadölum, en þær námu meira en 3 milljónum eða um 393 milljónum íslenskra króna á tímabilinu. Aukningin frá síðasta ársfjórðungi var 20%, en hún er að mestu leiti tilkomin vegna aukinnar sölu á viðskiptavinaleyfum og góðs gengis skýjaþjónustu fyrirtækisins, samkvæmt fréttatilkynningu frá Tempo í dag.

Bandaríkin, Þýskaland og Bretland eru stærstu markaðirnir fyrir vörur og þjónustu fyrirtækisins en 99% af tekjum þess urðu til utan Íslands. Fyrirtækið selur um 8600 hugbúnaðarleyfi til fyrirtækja um allan heim og bættust 580 ný við á síðasta ársfjórðungi, þar á meðal Starbucks, NBC Universal, Toshiba og British Telecommunications.

Ágúst Einarsson framkvæmdastjóri Tempo er að vonum himinlifandi yfir árangri fyrirtækisins og bjartsýnn á framhaldið: „Á aðeins fjórum árum hefur Tempo stækkað úr litlu teymi yfir í sívaxandi fyrirtæki með 80 starfsmönnum af 10 þjóðernum sem staðsettir eru víðsvegar um heiminn. Tekjur okkar hafa sömuleiðis tífaldast á þessu tímabili og skilar reksturinn í dag því góðri afkomu,“ er haft eftir honum í tilkynningunni.