Afkoma þeirra níu fyrirtækja sem skilgreind eru sem verðbréfafyrirtæki í skýrslunni nam samtals 588 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 12% milli ára. Það skal þó tekið fram að verðbréfastarfsemi eins og hún er skilgreind í lögum um verðbréfaviðskipti er þó ekki nema hluti af starfsemi nokkurra þeirra fyrirtækja sem falla undir flokkinn í skýrslunni og er afkoma þeirra því ekki fullkomlega samanburðarhæf. Af verðbréfafyrirtækjum var mestur hagnaður af rekstri Fossa markaða en hann nam 206 milljónum króna en dróst þó saman um 24% milli ára, hagnaður Arctica Finance nam 198 milljónum og lækkaði um 7%. Hagnaður Centra fyrirtækjaráðgjafar nam 72 milljónum og ríflega fjórtánfaldaðist milli ára auk þess sem hagnaður Íslenskra fjárfesta nam 53 milljónum og tæplega fjórfaldaðist. Á sama tíma jókst tap Íslenskra verðbréfa um 32 milljónir milli ára en það nam 68 milljónum á síðasta ári.

Eignir verðbréfafyrirtækjanna námu samtals 3.037 milljónum króna í árslok og jukust um 3,2% milli ára. Eiginfjárgrunnur fyrirtækjanna nam 1.923 milljónum króna í árslok og lækkaði lítillega milli ára á meðan áhættugrunnur þeirra nam tæplega 6,8 milljörðum og hækkaði um 10% milli ára.

Erfitt ár fyrir rekstrarfélögin

Hagnaður rekstrarfélaga verðbréfasjóða nam samtals 1,8 milljörðum á síðasta ári og dróst saman um 51% á milli ára. Mestu munar þar um neikvæðan viðsnúning í rekstri GAMMA en eins og áður hefur verið greint frá skilaði félagið 268 milljóna króna tapi samanborið við 626 milljóna króna hagnað árið áður en stærstur hluti sjóðastýringar félagsins hefur nú verið sameinaður Júpiter eftir kaup Kviku á GAMMA. Því til viðbótar dróst hagnaður Stefnis, stærsta sjóðastýringarfyrirtækis landsins, saman um 47% og nam 897 milljónum á síðasta ári auk þess sem hagnaður Landsbréfa lækkaði um 24% og nam 844 milljónum. Hagnaður Íslandssjóða jókst hins vegar um 52% og nam 278 milljónum auk þess sem Júpiter rekstrarfélag hagnaðist um 82 milljónir sem er 40% aukning frá fyrra ári. Eignir rekstrarfélaganna námu samtals 15,5 milljörðum í árslok 2018 og jukust um 2,5%, eiginfjárgrunnur þeirra nam 11,5 milljörðum og lækkaði um 1,7% en áhættugrunnur nam samtals 17,9 milljörðum og lækkaði einnig um 1,7%.

Eignir í stýringu í verðbréfa- og fjárfestingasjóðum rekstrarfélaganna námu samtals 474,3 milljörðum í lok árs og lækkuðu um 2,7% milli ára. Eignir í verðbréfasjóðum námu 148,5 milljörðum í lok árs og lækkuðu um 5,1% milli ára á meðan eignir í fjárfestingasjóðum námu 325,8 milljörðum og lækkuðu um 1,9% milli ára. Eignir í verðbréfaog fjárfestingasjóðum lækkuðu um 13,3 milljarða hjá GAMMA og námu 21,5 milljörðum í lok árs en mest var aukningin hjá Íslandssjóðum þar sem eignir hækkuðu um 21,8 milljarða.